Ísland á HM í sundi: Guðfinnur Karlsson


Íslenski hópurinn heldur út til London á laugardag til þess að keppa á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi. Síðustu daga höfum við verið að taka snarpan púls á íslenska landsliðssundfólkinu og nú er komið að Fjarðarliðanum Guðfinni Karlssyni sem er á leið á sitt fyrsta heimsmeistaramót í sundi. Guðfinnur keppir í flokki S11 (blindir).


Styttist í brottför til London, með þátttöku þinni á HM hvað verður þú þá búinn að taka þátt í mörgum stórmótum á borð við EM og HM?
Þetta verður stórmót númer tvö hjá mér, og mitt fyrsta HM.

Hvernig hefur undirbúningurinn gengið í sumar?
Þetta hefur gengið nokkuð vel hjá mér þegar á heildina er litið. Mikið af æfingatímum lofa góðu og mér finnst ég vera í fínu formi þessa dagana.

Hver eru þín markmið fyrir HM?
Fyrst og fremst ætla ég að slá sem flest persónuleg met í þeim sundum sem ég syndi. Miðað við allt brasið hjá mér eftir áramót gæti ég unað ágætlega við það, en auðvitað stefni ég hærra. Ég ætla að ná lágmarkstíma á Ólympíumót fatlaðra, sem verður haldið í Tokyo á næsta ári. Ég þarf að bæta tímana tallsvert til að ná því, en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Miðað við árangur sumarsins eru mestu möguleikar hjá mér í 100 metra bringusundi.

Hvernig líst þér á möguleika annarra íslenskra sundmanna á mótinu?
Við erum með fínt lið eins og oft áður. Ég held að flestir Íslendingarnir eigi eftir að komast í úrslit, og ef allt gengur að óskum hölum við inn eitthvað af verðlaunum.

Ísland á HM í sundi: Thelma Björg Björnsdóttir
Ísland á HM í sundi: Sonja Sigurðardóttir
Ísland á HM í sundi: Hjörtur Már Ingvarsson
Ísland á HM í sundi: Már Gunnarsson