Helgi án stiga í kjöri Íþróttamanns ársins


Stjórn og starfsfólk Íþróttasambands fatlaðra lýsa yfir vonbrigðum sínum á þeirri staðreynd að Evrópumeistarinn Helgi Sveinsson hafi ekki hlotið eitt einasta stig í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins 2016.


Fjöldi íþróttamanna gerði hávært tilkall til þess að vera inni á topp 10 listanum fyrir árið 2016 en alls voru 19 íþróttamenn sem hlutu stig í kosningunni. Allir sem fengu atkvæði í kosningunni eru vel að þeim komin og óskar Íþróttasamband fatlaðra þeim öllum innilega til hamingju. Enginn íþróttamaður úr röðum fatlaðra hlaut stig í kjörinu þetta árið.


Árið 2016 varð Helgi Sveinsson Evrópumeistari í spjótkasti í sameinuðum flokkum F42,43 og 44. Þá setti hann nýtt Paralympic-met í flokki 42 á Paralympics sem fram fóru í Ríó de Janeiro þegar hann kastaði 53,96 metra og hafnaði í 5. sæti. Á Paralympics er einnig keppt í sameinuðum flokkum aflimaðra (42,43 og 44) og er Helgi í flokki 42 eða þeirra sem keppa með mesta skerðingu innan flokkanna þriggja. Var hann einn úr hópi keppenda í flokki 42 sem komust í úrslit spjótkastkeppninnar í Ríó.


Er það einlæg von Íþróttasambands fatlaðra að ekki sé svo litið á að Evrópumeistaratitill í íþróttum fatlaðra og Paralympic-met séu svo léttvæg fundin að hægt sé að afskrifa slík afrek með öllu.