Hilmar yngstur Íslendinga á Winter-Paralympics


Winter Paralympics fara fram í PyeongChang í Suður-Kóreu dagana 9.-18. mars næstkomandi. Keppandi Íslands á leikunum er hinn 17 ára gamli Hilmar Snær Örvarsson sem keppir í alpagreinum (svig og stórsvig).

Hilmar tekur nú þátt í sínum fyrstu Winter Paralympics og verður fjórði Íslendingurinn til að keppa á leikunum en Ísland hefur áður tekið þátt í Lillehammer 1994, í Vancouver 2010 og í Sochi 2014.


Hilmar verður einnig yngsti keppandi Íslands frá upphafi þar sem hann er 17 ára gamall þegar keppnin fer fram en fram að þessu var Jóhann Þór Hólmgrímsson yngsti keppandinn þegar hann keppti fyrir Íslands hönd í Sochi 2014 þá 21 árs að aldri.


Aldur íslenskra keppenda á Winter Paralympics frá upphafi


Hilmar Snær Örvarsson 17 ára í PyeongChang 2018
Jóhann Þór Hólmgrímsson 21 árs í Sochi 2014
Erna Friðriksdóttir 23 ára í Vancouver 2010
Svanur Ingvarsson 31 árs í Lillehammer 1994


Mynd/ Visir.is