Patrekur með nýtt Íslandsmet í 400m hlaupi


Spretthlauparinn Patrekur Andrés Axelsson úr Ármanni setti í gær nýtt Íslandsmet í 400m hlaupi á opna franska meistaramótinu sem nú stendur yfir í París í Frakklandi.


Patrekur kom í mark á tímanum 58,28 sek. en lágmarkið fyrir HM í Dubai í nóvembermánuði er 57,00 sek. Í gær reyndi Patrekur einnig við lágmark í 100m hlaupi og kom í mark á tímanum 12,43 sek. en lágmarkið fyrir HM er 12,10 sek.


Mótið í Frakklandi er síðasta mótið í Grand Prix mótaröð IPC fyrir HM en lágmarkatímanum fyrir HM í Dubai lykur þann 30. september næstkomandi svo enn er möguleiki fyrir Patrek að ná lágmörkum inn á HM.


Patrekur keppir í dag í 200m hlaupi í flokki blindra (T11) en sú grein virkar ekki til lágmarka fyrir HM þar sem flokkur T11 hleypur ekki 200m hlaup á heimsmeistaramótinu.


Mynd/ Patrekur og Helgi Björnsson leiðsöguhlaupari Patreks gera sig klára í „startinu“ fyrir 400m hlaupið í gær.