Meiri útbreiðslu í baráttunni gegn einmanaleika og einelti


Sigurður var ódrepandi dugnaðarforkur
Viðtal við Magnús H. Ólafsson

(Við endurbirtum hér viðtal við Magnús H. Ólafsson sem birtist í 2.tbl Hvata 2018)


Árið 1973 ákvað Magnús H. Ólafsson að svara auglýsingu hjá ÍSÍ þar sem óskað var eftir einstaklingi til þess að ferðast erlendis á vegum sambandsins og kynna sér íþróttir fatlaðra. Markmiðið var að vinna upp kennsluefni fyrir íþróttir fatlaðra hérlendis en hér er óhætt að segja að tilurð Íþróttasambands fatlaðra sé sprottin. Frá því Magnús svaraði auglýsingunni fyrir rúmum fjórum áratugum hefur mikið vatn runnið til sjávar fyrir hans tilstilli og vitaskuld margra annarra en einhvers staðar eiga íþróttir fatlaðra á Íslandi sér uppruna og við rýndum lítið eitt í þann uppruna með Magnúsi.

Magnús H. Ólafsson er fyrrum íþróttakennari og sjúkraþjálfari. Uppalinn Ísfirðingur en var á eilífu flandri sem ungur maður eins og hann sjálfur komst að orði. „Ég lenti í Menntaskólanum á Akureyri og tók þar stúdentinn 1961 með góðu fólki. Að stúdentsprófi loknu fór ég beint í ÍKÍ á Laugarvatni og beint í kennslu að því námi loknu. Ég kenndi í fjögur ár við Reykjaskóla í Hrútafirði en þaðan lá leiðin til Norges í sjúkraþjálfaranám og þar fóru þessar vangaveltur mínar um íþróttir fatlaðra að hrærast í höfðinu á mér. Hvað menntunina varðar þá lagði ég stund á framhaldsnám í ergonomics eða vinnuvistfræði árið 1990 í Osló í Noregi og ferðaðist m.a. mikið um Ísland með þá þekkingu mína.

Sigurður var ódrepandi dugnaðarforkur

Magnús sagði við Hvata að lítið sem ekkert hefði verið í gangi í íþróttum fatlaðra á Íslandi á þessum tíma í kringum 1973. „Sigurður Magnússon þáverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ og síðar fyrsti formaður Íþróttasambands fatlaðra setti út auglýsingu á vegum ÍSÍ þess efnis að einstakling vantaði til þess að ferðast um Norðurlöndin og England til að kynna sér íþróttir fatlaðra sem voru í raun ekki til hér á þeim tíma. Sigurður var forsprakkinn í þessu innan ÍSÍ en hann var sjálfur fatlaður og brann fyrir þessu verkefni. Ég sá auglýsinguna hjá ÍSÍ og svaraði henni. Á þessum tíma var ég löngu búinn að átta mig á því að íþróttir myndu gagnast fötluðum einkar vel. Úr varð að ég var valinn til að fara í þessa ferð en auglýsingin birtist um áramótin 1973-74 og ég var farinn út vorið 1974,“ sagði Magnús en á svipuðum tíma er Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík stofnað en það er elsta íþróttafélag fatlaðra á landinu.

„Ég minnist þess hve ódrepandi dugnaðarforkur hann Sigurður Magnússon var í þessu, að minnsta kosti í því sem snéri að mér og þessu verkefni að ferðast út til þess að koma heim með afraksturinn. Það er lán fatlaðra að Sigurður hafi skotið upp kollinum í íþróttahreyfingunni,“ sagði Magnús sem dvaldi á ferðalögum fyrir ÍSÍ um Norðurlönd og England í samtals 10 vikur.

Einhentir stungu mig af

„Fyrir tilstilli Sigurðar komst maður í samband við skrifstofur Íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum og þar sat ég löngum stundum og þýddi reglurnar þeirra. Ég ferðaðist um Noreg, Svíþjóð, Danmörku og England og þarna ytra var margt að sjá sem víkkaði sjóndeildarhringinn hjá manni. Úti í Svíþjóð leiddu þau mig t.d. í allan sannleikann um bogfimi og í Noregi dvaldi ég í Morgedal, vöggu skíðagöngunnar þar í landi. Þar tók ég m.a. þátt í keppni í skíðagöngu þar sem einhentir keppendur stungu mig af en sú keppni var bráðskemmtileg. Þá var sú keppni í tísku og oftar en ekki voru þar þekktir einstaklingar eins og þingmenn sem tóku líka þátt í keppninni og hlutu sömu örlög og ég, að vera burstaðir í keppninni. Hitt er svo annað að þessi keppni var fyrirtaks útbreiðsluverkefni enda skíðaiðkun gríðarlega vinsæl í Noregi og er enn. Einnig kom ég við á sjúkrahúsinu í Beitostölen lengst uppi í fjöllum í Noregi. Þar starfaði um tíma m.a. vinur minn Magnús B. Einarson. Í Beitostölen fylgdist ég með skíðagöngu blindra en þess má geta að forstöðumaður sjúkrahússins var sjálfur blindur.“


Árin 1974-1979

Magnús hélt í víking um Norðurlöndin og England árið 1974. Þetta sama ár eru Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík og Akur á Akureyri stofnuð eða fimm árum áður en Íþróttasamband fatlaðra varð til. Hvati innti Magnús eftir því hvernig starfsemin hafi verið áður en ÍF kom til sögunnar. „Það átti sér heilmikið stað á þessum tíma. Ég og Sigurður settum t.d. fjöldamörg námskeið í gang fyrir fatlaða og starfsemi hófst hjá ÍFR og Akri. Námskeiðin hófust í Reykjavík og þar á fyrstu námskeiðunum kom m.a. Júlíus Arnarson sem síðar varð formaður ÍFR. Þess má einnig geta að ÍKÍ kom einnig fljótlega inn í námskeiðahaldið. Á þessum tíma tók ég líka þátt í að koma Akri á koppinn og þar var fjöldi fólks við stofnunina, fólk á öllum aldri og ég minnist sérstaklega gamalla hjóna sem mættu á hverja einsutu æfingu og höfðu óskaplega gaman af. Framan af voru aðallega boccia, borðtennis og sund í boði minnir mig,“ sagði Magnús og er það nokkurn  veginn með þeim hætti enn þann dag í dag. Boccia, sund og frjálsar eru þrjár stærstu greinar fatlaðra á Íslandi þó vissulega hafi fleiri íþróttagreinar komið til sögunnar á þessum rúmu fjóru áratugum sem liðnir eru frá upphafinu.

„Ég minnist þess þegar við Sigurður héldum þessi fyrstu námskeið þá átti að vera námskeið fyrir norðan á Akureyri og við ætluðum að hafa námskeið með öllum tilheyrandi búnaði og það átti að flytja búnaðinn með flugi norður. Eins og vill oft verða þá var ekki flogið vegna veðurs en því kippti Sigurður í liðinn með því að panta flutningabíl undir búnaðinn svo námskeiðið gat farið fram með miklum myndarbrag,“ sagði Magnús og ljóst að honum fannst og finnst enn mikið til Sigurðar hafa komið enda talaði hann af mikilli einlægni og virðingu um Sigurð Magnússon.

„Þegar ég hafði þjálfað hjá Akri í um það bil áratug þá kemur Þröstur Guðjónsson, annar góður Ísfirðingur, til sögunnar og hann var mjög áhugasamur um efnið. Hann var heillengi hjá Akri,“ sagði Magnús sem gat ekki séð fyrir hve mikið starfið yrði á endanum þegar hann sat úti á Norðurlöndum við að þýða leikreglur yfir á íslensku.

Magnús á margar sögur af ferlinum og Hvati fékk hann til þess að deila nokkrum með sér af þessum upphafsárum íþrótta fatlaðra.


Vantrúaði læknirinn

Magnús er ekki í vafa um ágæti íþróttaiðkunar fatlaðra. Ekki aðeins í viðleitni til þess að verða afreksmaður heldur líka fyrir almennt hreysti.
„Það var læknir á Akureyri sem fékk stúlku inn á heimili sitt. Þessi stúlka var fötluð og ég held að hún hafi verið skyld konu þessa ágæta læknis. Þessi læknir sagði einmitt við mig þarna að hann skyldi nú ekkert hvað ég væri að gera með þessu íþróttastarfi fatlaðra. Þessi unga kona kom sem sagt að æfa með okkur í Akri og mörgum mánuðum síðar þegar ég hitti lækninn á nýjan leik sagði hann: „Nú skil ég hvað þú ert að gera Magnús.“ Hann sá bara merkjanlegan mun á stúlkunni, þetta var vel þokkaður læknir og klár karl og sá þarna svart á hvítu þá miklu breytingu sem varð á ungu stúlkunni sem hjá honum dvaldi. Þetta situr alltaf í mér sem skýrt dæmi um hve mikilvægar íþróttirnar eru fyrir fatlaða.“


Hann stökk yfir tvo metra!

Magnús fór í ótal keppnisferðir og var m.a. á Ólympíumóti fatlaðra (síðar Paralympics) í Hollandi 1980 og minnist þess sérstaklega þegar hann varð vitni að hástökki á mótinu. „Ég hreinlega man ekki hvort hann stökk 204 cm eða 206 cm á öðrum fæti! Hann var einfættur með aflimun nánast við mjöðm og stökk yfir tvo metra. Hann fór eiginlega í kollhnýs yfir stöngina en það var algerlega magnað að fylgjast með þessu,“ rifjar Magnús upp en það er fleira sem kemur upp í hugann.

„Það var svo margt í gangi á þessum ferðalögum. Það snerti mig samt sérstaklega þarna í Hollandi þegar við sáum Argentínska kvennalandsliðið í blindrabolta kvenna tapa miklum baráttuleik, ég man ekki alveg hverjir andstæðingarnir voru. Að leik loknum héldum við upp í rútu og þá kom þetta argentínska lið með okkur í rútuna og þær hágrétu eftir tapið sára. Skyndilega byrjaði einhver í rútunni að raula lagið „Don´t cry for me Argentina.“ Öll rútan tók undir og innan örfárra mínútna voru þessar hágrátandi argenstínsku stúlkur farnar að syngja með okkur og öll rútan syngjandi alla leið heim á hótel,“ sagði Magnús sællar minningar.

Magnús fór líka nokkrum sinnum á Stoke Mandeville leikana en sá staður er jafnan sagður fæðingarstaður íþrótta fatlaðra. Á þeim tíma vorum við Íslendingar samkvæmt Magnús uppteknir af sundíþróttinni hjá fötluðum og erum það reyndar enn í dag þó vissulega hafi fleiri greinar skotið upp kollinum. En hvernig vill Magnús sjá þennan bolta sem hann tók þátt í að rúlla af stað halda áfram næstu áratugina?

„Þessu er erfitt að svara en ég tel að rólegt og tryggt áframhald í sömu mynd gerði öllum gott. Ef hægt er að auka útbreiðslu og ná til fleiri sem eiga í erfiðleikum vegna einangrunar og eineltis þá er það algerlega frábært.“