Sundmaðurinn Róbert Ísak Jónsson og frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir eru íþróttafólk ársins 2018 hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Kjörinu var lýst á Radisson Blu Hóteli Sögu þann 13. desember en þetta var í fyrsta sinn hjá báðum þessum efnilegu íþróttamönnum sem þau hljóta þessa nafnbót. Róbert Ísak gat ekki verið viðstaddur athöfnina þar sem hann var í fríi með fjölskyldu sinni erlendis.
Íþróttamaður ársins 2018: Róbert Ísak Jónsson
Aldur: 17 ára
Félag: Fjörður/SH
Íþrótt: Sund
Flokkur: S14 (þroskahamlaðir)
Sundmaðurinn Róbert Ísak Jónsson er íþróttamaður ársins 2018. Magnað ár er að baki hjá Róberti sem vann til tvennra silfurverðlauna á Evrópumeistaramótinu í sundi sem fram fór í Dublin síðastliðið sumar. Á árinu setti Róbert 18 Íslandsmet, varð ferfaldur Norðurlandameistari og varð stigahæsti ungi sundmaðurinn undir 18 ára aldri á heimsmótaröð IPC í sundi.
Þetta er í fyrsta sinn sem Róbert hlýtur útnefninguna Íþróttamaður ársins en hann hefur verið á mikilli siglingu síðustu ár og m.a. unnið Nýársmót fatlaðra barna og unglinga þrjú síðustu ár og varð heimsmeistari á árinu 2017. Þjálfarar Róberts frá upphafi eru Ólafur Þórarinsson, Helena Hrund Ingimundardóttir, Klaus Jurgen Ohk og þjálfari Róberts í dag er Mladen Tepavcevic.
Róbert var nýverið valinn Íþróttamaður ársins hjá Íþróttafélaginu Firði og varð Íslandsmeistari í sjósundi ásamt því að verða bikarmeistari með Firði í bikarkeppni ÍF síðasta sumar. Alls vann Róbert til 25 verðlauna á árinu á erlendri grundu og varð þrefaldur aldursflokkameistari á AMÍ í sumar.
Íþróttakona ársins 2018: Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir
Aldur: 18 ára
Félag: ÍR
Íþrótt: Frjálsar íþróttir
Flokkur: F/T 37 (hreyfihamlaðir)
Frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir er íþróttakona ársins 2018. Bergrún sprakk út á Evrópumeistaramótinu í Berlín síðastliðið sumar þar sem hún vann til þrennra verðlauna. Brons í 100 og 200 metra hlaupi og silfur í langstökki. Með útnefningunni er Bergrún önnur frjálsíþróttakona sögunnar sem verður íþróttakona ársins en fyrst varð Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir nafnbótarinnar aðnjótandi árið 2012 en hún keppti einmitt í sama flokki og Bergrún.
Þetta er í fyrsta sinn sem Bergrún verður Íþróttakona ársins en hún hefur tekið stórstigum framförum síðustu ár. Bergrún vann alls til átta verðlauna á erlendum mótum þetta árið og setti sex Íslandsmet, fjögur utanhúss og tvö innanhúss.
Þjálfarar Bergrúnar frá upphafi í frjálsum eru Óskar Hlynsson og Brynjar Gunnarsson sem er núverandi þjálfari Bergrúnar.
Hvataverðlaun ÍF 2018: Óskar Hlynsson og Andri Snær Ólafsson
Hvataverðlaun Íþróttasambands fatlaðra 2018 hljóta þeir Óskar Hlynsson og Andri Snær Ólafsson. Báðir hafa þeir sinnt hlutverki leiðsöguhlaupara fyrir afreksíþróttamanninn Patrek Andrés Axelsson.
Patrekur Andrés er fyrsti blindi spretthlaupari Íslands og þegar hann hóf vegferð sína á afrekssviði var ljóst að hann þyrfti leiðsöguhlaupara bæði til þess að stunda sínar æfingar og keppni. Þónokkrir hafa verið tilkallaðir en Íþróttasamband fatlaðra vill sérstaklega heiðra framlag þeirra Óskars og Andra fyrir sína vinnu með Patreki sem hefur tekið gríðarlegum framörum í spretthlaupi blindra. Kári Jónsson annar tveggja yfirmanna landsliðsmála ÍF er þjálfari Patreks og hefur haft veg og vanda að þessu yfirgripsmikla samstarfi.
Óskar Hlynsson er frjálsíþróttaþjálfari og hefur æft með Patreki hér á Íslandi. Andri Snær er læknir og búsettur í Danmörku og hefur keppt með Patreki og hefur samstarf þessara aðila gengið vonum framar.
Samæfing leiðsöguhlaupara og íþróttamannsins er mikil tæknivinna og þolinmæðisverk fyrir alla hlutaðeigandi en bæði Óskar og Andri hafa nálgast sín hlutverk af mikilli fagmennsku í samstarfi við Kára og Patrek og óhætt að segja að þessi hópur sé að vinna æsispennandi brautryðjendastarf í íþróttum fatlaðra á Íslandi.
Íþróttasamband fatlaðra óskar Andra og Óskari til hamingju með Hvataverðlaunin 2018.
Mynd/ Jón Björn - Frá vinstri Óskar Hlynsson leiðsöguhlaupari og handhafi Hvataverðlaunanna. Vilborg Matthíasdóttir amma Róberts Ísaks, Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir íþróttakona ársins og Ólafur Friðrik Ægisson faðir Andra Snæs handhafa Hvataverðlaunanna ásamt Óskari.