Paralympic-dagurinn 2018


Paralympic-dagurinn er helgaður kynningu á íþróttagreinum sem stundaðar eru innan vébanda Íþróttasambands fatlaðra. Íþróttanefndir ÍF, aðildarfélög ÍF og samstarfsaðilar sambandsins koma saman í frjálsíþróttahúsinu í Laugardal, sem tengt er Laugardalshöll, til að kynna íþróttagreinar og starfsemi íþróttafélaga fatlaðra. Samstarfsaðilar eru með kynningar og boðið er upp á pylsur og drykki úr „grillbíl“ Atlantsolíu.


Markmiðið með deginum er að auka þátttöku í íþróttum fatlaðra. Markhópurinn eru fatlaðir og fjölskyldur fatlaðra barna og eru þeir hvattir til að koma á staðinn til að kynna sér íþróttir sem í boði eru og átta sig á fjölbreytileikanum sem í boði er hér á landi.


Mikilvægi hreyfingar er mikil og ekki síst fyrir fatlaða einstaklinga sem geta með markvissri þátttöku í íþróttum aukið lífsgæði og getu til þátttöku í samfélaginu.


Kynnir dagsins verður Jón Jónsson, tónlistarmaður með meiru.


Hlakka til að sjá ykkur í Laugardal 29. september.


Þórður Árni Hjaltested
formaður Íþróttasambands fatlaðra