Ráðherra eflir fötluð börn til íþróttaiðkunar


­­Íþróttasamband fatlaðra hefur hlotið styrk frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og jafnréttismálaráðherra og er styrkurinn ætlaður fyrir verkefni á vegum sambandsins sem miða að því að auka þátttöku fatlaðra barna í íþróttum.


Íþróttasamband fatlaðra stundar mikla „maður á mann“ vinnu ef svo má að orði komast við að þróa og bjóða ungum sem öldnum íþróttaúrræði við þeirra hæfi. Sem dæmi má nefna YAP verkefnið í umsjón Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, framkvæmdastjóra fræðslu - og útbreiðslusviðs sambandsins, en verkefnið miðar að því að auka hreyfifærni allra barna á leikskólastigi.

Mörg járn eru í eldi ÍF enda starfar sambandið með aðilum úr röðum fatlaðra frá því einstaklingarnir hefja sína íþrótta- og lýðheilsuiðkun allt þar til sumir hverjir ná afreksstigi og flóran er fjölbreytt þar á milli. Það verða ekki allir afreksmenn, en sambandið þarf að tryggja að þau æfingaúrræði aðildarfélaga þess og verkefni á vegum sambandsins séu öllum aðgengileg, óháð búsetu.

Við þetta tilefni sagði sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra „Starf og verkefni Íþróttasambands fatlaðra eru afar spennandi. Í starfinu er þess m.a. freistað að sporna gegn félagslegri einangrun fatlaðra barna og unglinga og er það mikilvægur liður í aðgerðum sem við þurfum að grípa til sem samfélag“.

Um leið og Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, þakkaði Ásmundi Einari ráðherra rausnarlegan styrk lýsti hann yfir mikilli ánægju með þann áhuga sem hann hefur sýnt starfsemi sambandsins og sagði þann velvilja ómetanlegan og hvatningu til enn frekari eflingar íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi.

Mynd/ Ásmundur Einar og Þórður Árni.