Róbert Ísak vann Sjómannabikarinn þriðja árið í röð!


Nýárssundmót Íþróttasamband fatlaðra fór fram í innilauginni í Laugardal laugardaginn 6. janúar síðastliðinn. Sundmaðurinn Róbert Ísak Jónsson vann þar Sjómannabikarinn þriðja árið í röð en Sjómannabikarinn er veittur þeim sundmanni sem á stigahæsta sund mótsins hverju sinni. Glæsilegur árangur hjá Róberti sem þrátt fyrir ungan aldur varð m.a. heimsmeistari í 200m fjórsundi á HM í Mexíkó í desembermánuði 2017.


Venju samkvæmt stóðu skátar frá Skátafélaginu kópum heiðursvörð við mótið og tónlistarflutningur við upphaf og setningu mótsins var glæsilegur hjá Skólahljómsveit Kópavogs. Heiðursgestur mótsins var Lilja Alfreðsdóttir íþrótta-, mennta-, og menningarmálaráðherra.


Sigur Róberts á mótinu var athyglisverður en þetta var í þriðja sinn í röð sem hann vinnur Sjómannabikarinn og þar með er hann kominn í fámennan úrvalshóp þar sem aðeins Birkir Rúnar Gunnarsson, Gunnar Örn Ólafsson, Guðrún Sigurðardóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir hafa unnið Sjómannabikarinn þrjú ár í röð.


Sjómannabikarinn í ár hlaut Róbert fyrir 50m flugsund þar sem hann landaði 735 stigum.


Myndasafn frá mótinu/ Sverrir Gíslason
Úrslit mótsins


Íþróttasamband fatlaðra þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við mótið svo það gæti farið fram í jafn sterkri og veglegri umgjörð eins og raun bar vitni. Sérstakar þakkir fá Logi Sigurfinnsson og hans sómafólk í Laugardalslaug fyrir áralangt gott samstarf og frábært viðmót!

Mynd/ Sverrir Gíslason: Lilja Alfresdóttir íþrótta-, mennta-, og menningarmálaráðherra ásamt Þórði Árna Hjaltested formanni ÍF og efstur á palli er vitaskuld sigurvegarinn Róbert Ísak Jónsson.