Helgi og Thelma íþróttafólk ársins 2017


Guðmundur í Íslensku Ölponum hlaut Hvataverðlaunin

Kjöri íþróttamanns og íþróttakonu ÍF 2017 var lýst á Radisson Blu Hóteli Sögu í dag þar sem Helgi Sveinsson var útnefndur íþróttamaður ársins 2017 og Thelma Björg Björnsdóttir var útnefnd íþróttakona ársins 2017. Þá hlaut Guðmundur Gunnlaugsson Hvataverðlaunin en hann er framkvæmdastjóri verslunarinnar Íslensku Alparnir.


Íþróttakona ársins Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR (S6)


Íþróttakona ársins 2017 er Thelma Björg Björnsdóttir, sundkona frá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Þetta er í fjórða sinn sem Thelma er útnefnd íþróttakona ársins úr röðum fatlaðra en 2013-2015 vann hún þrjú ár í röð.
Thelma átti góðu gengi að fagna á árinu, setti 23 ný Íslandsmet og tvö heimsmet í 25m laug í 800m skriðsundi og 200m baksundi og vann síðan í desembermánuði til bronsverðlauna í 100m bringusundi á heimsmeistaramótinu í Mexíkó. Þjálfari Thelmu í dag er Tomas Hajek en frá upphafi hefur hún notið leiðsagnar hjá Halldóri Sævari Guðbergssyni, Evu Þórdísi Ebenezersdóttur og Erlingi Þ. Jóhannssyni ásamt áður nefndum Tomasi Hajek.


Íþróttamaður ársins Helgi Sveinsson Frjálsar, Ármann (F42)


Íþróttamaður ársins 2017 er Helgi Sveinsson, spjótkastari frá Ármanni. Þetta er í fjórða sinn sem Helgi hlýtur útnefninguna íþróttamaður ársins hjá ÍF en hann var sæmdur þessari nafnbót í fyrsta sinn árið 2013. Þetta er því þriðja árið í röð sem Helgi verður íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra.
Helgi setti nýtt og glæsilegt heimsmet í spjótkasti á árinu þegar hann kastaði 59,77 metra á móti á Ítalíu. Þá hafnaði hann í 2. sæti á heimsmeistaramóti fatlaðra sem fram fór í London. Á HM bætti Helgi heimsmeistaramótsmetið í flokki F42 þegar spjótið sveif 56,74 metra. Þjálfari Helga í dag er Einar Vilhjálmsson en þjálfarar frá upphafi eru Kári Jónsson, Guðmundur Hólmar Jónsson og áður nefndur Einar Vilhjálmsson.



Hvataverðlaunin 2017


Guðmundur Gunnlaugsson framkvæmdastjóri verslunarinnar „ Íslensku Alpana“ hlýtur Hvataverðlaun ÍF 2017
Guðmundur Gunnlaugsson framkvæmdastjóri verslunarinnar „Íslensku Alparnir“ hefur verið einn mikilvægasti bakhjarl ÍF hvað varðar uppbyggingu og þróun skíðastarfs fyrir fatlaða í fjölda ára. Hann hefur auk þess að styrkja þróunarstarfið á veglegan hátt, verið einn helsti bakhjarl afreksstarfsins. Skíðaíþróttin er mjög kostnaðarsöm, ekki síst vegna kaupa á dýrum búnaði og að eiga slíkan bakhjarl sem Guðmund og „Íslensku Alpana“ hefur reynst ómetanlegt.


Fjölskylda Axels Gunnlaugssonar, bróður Guðmundar gaf ÍF sérhannaðan skíðasleða (mono ski) til minningar um Axel sem nýtti sérhannaðan búnað ÍF, eftir slys sem hann varð fyrir. Hann sótti námskeið ÍF á Íslandi og sótti æfingar hjá samstarfsaðilum ÍF í Winter Park. Markmið Axels var að verða fyrstur Íslendinga til að taka þátt í Vetrar-Paralympics í alpagreinum. Því miður varð ekki af því en aðrir tóku við keflinu og nú hafa tveir keppendur frá Íslandi keppt í alpagreinum á Vetrar-Paralympics. Næstu leikar verða árið 2018 í Suður-Kóreu og stefnt er að þátttöku Íslands þar. Guðmundur og Íslensku Alparnir sýna þar enn og aftur ómetanlegan stuðning.


Íþróttasamband fatlaðra þakkar Guðmundi fyrir sitt mikilvæga framlag. Hann er sannarlega vel að þessu komin.
Sérstakar kveðjur og þakkir eru einnig frá ÍF til fjölskyldu Guðmundar Gunnlaugssonar.


Myndir/ Íþróttafólk ársins Helgi og Thelma á efri myndinni en á þeirri neðri er Guðmundur Gunnlaugsson framkvæmdastjóri Íslensku Alpanna.