Líf og fjör í Laugardal á Paralympic-deginum 2017


Síðastliðin laugardag var Paralympic-dagur Íþróttasambands fatlaðra haldinn hátíðlegur í þriðja sinn en dagurinn er stórskemmtilegur kynningardagur á íþróttastarfi fatlaðra á Íslandi. Líkt og undangenin ár fór dagurinn fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal auk þess sem bætt var við þeirri nýbreytni að halda sundkynningu í innilauginni í Laugardal.


Þar kynntu aðildarfélög sambandsins starfsemi sína og íþróttanendir ÍF gáfu gestum og gangandi tækifæri til að prófa þær fjölmörgu íþróttagreinar sem í boði eru og sýna þannig að allir geti fundið íþróttagrein við hæfi. Auk kynninga var fjölmargt í gamans gert, Latibær með íþróttaálfinn, Sollu stirðu og Sigga sæta kíktu í heimsókn, Dansdívurnar stigu á stokk og sýndu nokkur létt spor, sjáandi hlauparar spreyttu sig í blindrahlaupi á móti Patreki Axelssyni okkar besta blindrahlaupara svo nokkuð sé nefnt.


Sérstakur gestur á degninum var Þjóðverjinn Markus Rem, heims- og Paralympic-/Ólympíumótsmeistari í langstökki sem tók nokkur sýningarstökk þar sem hann hjó nærri heimsmeti sínu sem er 8.40m. Þá heiðraði samkomuna Evrópumeistarinn í spjótkasti, Helgi Sveinsson, með nærveru sinni en hann líkt og Markus á heimsmetið í sinni grein.
 

Fjölmargir gestir lögðu leið sína í Laugardalinn og kynntu sér það sem fram fór. Vonandi leyndust þeirra á meða Paralympic-/Ólympíumótsmeistarar framtíðarinnar en til upplýsinga hafa fatlaðir íþróttamenn unnið til 98 verðlauna á Paralympics-/Ólympíumótum fatlaðra.
 

Íþróttasamband fatlaðra vill fá að koma á framfæri sínum bestu þökkum til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að gera daginn jafn glæsilegan og raun bar vitni.


Myndir/ Bára Dröfn Kristinsdóttir - Patrekur Andrés Axelsson í 100m hlaupinu á Paralympic-deginum og á myndinni hér fyrir neðan er Þjóðverjinn Markus Rehm að sýna listir sínar í langstökki.