Sveinn Áki heiðursfélagi ÍF


Sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra var sett á Radisson Blu Hóteli Sögu í Reykjavík í dag þar sem fráfarandi formaður ÍF, Sveinn Áki Lúðvíksson, var gerður að heiðursfélaga ÍF. Með því er Sveinn Áki aðeins annar núlifandi heiðursfélagi sambandsins ásamt Ólafi Þór Jónssyni fyrrum stjórnarmanni ÍF.


Við sama tækifæri sæmdi Sveinn Áki fjóra aðila gullmerki ÍF en þau voru Helga Steinunn Guðmundsdóttir varaforseti ÍSÍ, Karl Þorsteinsson formaður boccianefndar ÍF, Guðbjörg Ludvigsdóttir í fagráði ÍF og Ragnheiður Austfjörð formaður Íþróttafélagsins Eikar á Akureyri.


Þá sáu Helga Steinunn Guðmundsdóttir og Hafsteinn Pálsson þingforseti og meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍF um að sæma Svein Áka heiðurskrossi ÍSÍ fyrir sitt framlag í þágu íþróttastarfs fatlaðra í gegnum árin. Heiðurskross ÍSÍ er æðsta merki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.


Nánar verður greint frá þinginu síðar.


Mynd/ JBÓ: Sveinn Áki ásamt eiginkonu sinni Sigrúnu Jörundsdóttur við upphaf 18. Sambandsþings ÍF í dag.