Hilmar náði sjöunda sæti seinni keppnisdaginn


Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson hefur nú lokið keppni í stórsvigi á Europa Cup sem fram fór í Kranskja Gora í Slóveníu. Um var að ræða tvo keppnisdaga í stórsvigi en fyrri daginn skíðaði Hilmar úr braut í seinni ferðinni. 


Í gær var annar keppnisdagur í stórsviginu þar sem Hilmar lauk báðum ferðum og hafnaði í 7. sæti af þeim tíu keppendum sem náðu að ljúka keppni. Fyrir árangurinn fékk hann 160,83 stig sem er hans besti alþjóðlegi árangur í stórsvigi til þessa! 


Hilmar kom í mark á tímanum 2:03,61mín. en sigurvegari keppninnar var Thomas Grochar frá Austurríki sem kom í mark á tímanum 1:46,81mín. 


Þórður Georg Hjörleifsson þjálfari Hilmars er með honum ytra og hafa þeir kappar nú fært sig yfir til Sljeme í Króatíu þar sem við tekur keppni í svigi.


Mynd/ Hilmar í Kranskja Gora í Slóveníu á dögunum.