Frjálsíþróttamaðurinn Helgi Sveinsson, Ármanni, og sundkonan Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR, voru í dag útnefnd íþróttamaður og íþróttakona ársins 2015 úr röðum fatlaðra. Kjörinu var lýst á Radisson Blu Hóteli Sögu. Þá hlaut Guðmundur Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður Hvataverðlaunin 2015.
ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2015: THELMA BJÖRG BJÖRNSDÓTTIR, ÍFR
Nafn: Thelma Björg Björnsdóttir
Félag: ÍFR
Íþrótt: Sund
Flokkur: S6-SB5 (hreyfihamlaðir)
Íþróttakona ársins: 2013,2014,2015.
Staða á heimslista S6: 50 skrið 21/66 – 100 skrið 15/59 – 400 skrið 10/37 - 50 bak 9/14 – 100 bak 28/53 – 100 bringa 12/38
Thelma Björg er nemi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og stundar sund með Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Þjálfari hennar í dag er Tomas Hajek en þjálfarar Thelmu frá upphafi eru Halldór Sævar Guðbergsson, Eva Þórdís Ebenezersdóttir, Erlingur Þ. Jóhannsson og áðurnefndur Tomas Hajek. Á árinu 2015 setti Thelma alls 30 Íslandsmet, varð Norðurlandameistari í 400m skriðsundi og hafnaði í 5. sæti á heimsmeistaramótinu í Glasgow í 100m bringusundi. Thelma gat ekki verið viðstödd athöfnina í dag þar sem hún berst fyrir lágmörkum á Paralympics og er af þeim sökum stödd við keppni í Póllandi. Thelma er aðeins önnur konan í sögunni til þess að vera útnefnd íþróttakona ársins þrisvar sinnum eða oftar. Hin er Kristín Rós Hákonardóttir sem hlaut nafnbótina alls 12 sinnum þegar hún vann 12 ár í röð!
ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS 2015: HELGI SVEINSSON, ÁRMANN
Nafn: Helgi Sveinsson
Félag: Ármann
Íþrótt: Frjálsar íþróttir
Flokkur: F42
Íþróttamaður ársins: 2013,2015
Staða á heimslista F42: 1
Helgi Sveinsson er starfsmaður hjá Össur hf. og frjálsíþróttamaður hjá Ármanni. Þjálfari hans í dag er Kári Jónsson en þjálfarar frá upphafi eru áðurnefndur Kári, Guðmundur Hólmar Jónsson og Einar Vilhjálmsson. Helgi var ungur og efnilegur handknattleiksmaður en aflima þurfti vinstri fót ofan við hné á unglingsárum. Helgi tók þátt í sínu fyrsta stórmóti sumarið 2012 á Evrópumeistaramótinu í Hollandi og náði þar öðru sæti, hann er í dag Evrópumeistari frá 2014 í Swansea, heimsmethafi og heimsmeistaramótsmetshafi í spjótkasti F42. Helgi vann til bronsverðlauna á árinu á HM í frjálsum sem fram fór í Doha í Katar þar sem keppt var í sameinuðum flokki F42, 43, og 44 en þannig verður málum háttað á Paralympics í Ríó De Janeiro 2016. Helgi kastaði yfir heimsmet kínverjans Fu Yanlong í greininni 52,79m á fjórum mótum á árinu, 54,62m á JJ-móti Ármanns, 57,36 á kastmóti FH, 56,04m á Bislet í Osló og 55,18m á HM í Doha þar sem hann setti heimsmeistaramótsmet í flokki F42. Helgi á lengsta kast ársins í flokkunum þremur, 57,36m.
Hvataverðlaunin 2015
Hvataverðlaun ÍF eru veitt einstaklingum, félagasamtökum, stofnun, fyrirtæki eða öðrum aðilum sem á framsækinn hátt hafa unnið í þágu íþróttastarfs fatlaðra á árinu.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Guðmundur Sigurðsson hlaut Hvataverðlaunin í ár fyrir LETR verkefnið. LETR eða Law Enfoercement Torch Run er alþjóðlegt verkefni sem byggir á samstarfi Special Olympics og lögreglumanna. Guðmundur tók að sér að stýra innleiðingu LETR á Íslandi og virkjað lögreglumenn- og konur til þátttöku í kyndilhlaupum fyrir Íslandsleika Special Olympics. Guðmundur tók m.a. þátt í LETR hlaupinu fyrir heimsleika Special Olympics í Los Angeles síðastliðið sumar.
Mynd/ Frá vinstri: Emil Steinar Björnsson bróðir Thelmu tók við verðlaunum systur sinnar sem stödd er í Póllandi við keppni. Fyrir miðju er Guðmudnur Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður og til hægri er Helgi Sveinsson íþróttamaður ársins.