Íþróttafræðinemar HÍ í heimsókn hjá Heilsuleikskólanum Skógarás, Ásbrú


Það var lif og fjör þegar íþróttafræðinemar HÍ heimsóttu heilsuleikskólann Skógarás, Ásbrú en tilgangur var að kynnast YAP verkefninu sem Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttakennari hefur innleitt frá árinu 2015. YAP byggir á markvissri hreyfiþjálfun og er innleitt í samstarfi við Special Olympics á Íslandi.  Meginmarkmið er snemmtæk íhlutun á sviði hreyfifærni en jafnframt horft til þeirra jaðaráhrifa sem slík þjálfun kallar fram. Ásta Katrín hefur aðlagað verkefnið að almennu starfi kennara í leikskólanum sem geta nýtt ýmsar æfingar í tengslum við annað nám. Nemendur HÍ fylgdust með nemendum fara gegnum þrautabraut sem byggð er upp með ákveðið markmið í huga en YAP verkefnið byggir á 8 meginþáttum og er hannað af háskólanum í Boston. Horft er sérstaklega á samspil hugar og handa og hvernig markviss hreyfiþjálfun ungra barna getur haft áhrif á aðra þætti s.s. málþroska, félagsfærni og sjálfstraust. Árangurinn hefur verið mjög athyglisverður og sýnir fram á gildi þess að markviss hreyfiþjálfun sé í boði fyrir börn á leikskólaaldri.  Þó sérstök áhersla YAP sé á að sinna þeim börnum sem þurfa sérstaka þjálfun þá eru öll börn að njóta æfinganna og öll börn fá YAP tíma í þessum leikskóla. Ef talin er þörf á meiri þjálfun, fá þau börn aukatíma.   Lykilatriði er að stjórnendur leikskólans hafa stutt vel við starf Ástu Katrínar.

Í lok tímans tóku leikskólabörnin að sér að stýra nemum HÍ gegnum þrautabrautina.  Í framhaldi þessa munu nemarnir kynna sér YAP test sem nýtt er til að meta og mæla stöðu og framfarir hvers barns. 

Eftir þessa heimsókn vöknuðu margar spurningar um hvers vegna ekki er lögð  meiri áhersla á að markviss hreyfiþjálfun sé í boði í öllum leikskólum.