Tölfræðiyfirlit Special Olympics Int 2020 á heimsvísu og í í Evrópu


Skrifstofur Special Olympics International í Washington og Evrópusamtaka Special Olympics í Brussel hafa haldið ítarlegt yfirlit um tölfræði einstaka þátta innan samtakanna.

Hér er kynnt tölfræðiyfirlit 2020  en helstu þættir sem tölfræðin nær yfir eru fjöldi  iðkenda, þjálfara, sjálfboðaliða, íþróttagreina og íþróttaviðburða og samstarfsaðila. Einnig nær tölfræðin yfir sérverkefni og þróunarverkefni eins og heilsumælingar, leiðtogaþjálfun, samstarf við skóla vegna blöndunar eða (unified) og YAP verkefnisins. ( Young athletes), 

Árið 2019 voru skráðir iðkendur  um 6.7 milljónir á heimsvísu og (unified partner) eða ófatlaðir æfinga og keppnisfélagar alls 1.milljón á heimsvísu. 

Ísland hefur sent um 500 keppendur á heims- og Evrópuleika Special Olympics, jafnt byrjendur sem lengra komna í  fjölmörgum íþróttagreinum. 

 

Ísland var skráð aðildarland Special Olympics Int. árið 1989 og Íþróttasamband fatlaðra hefur verið umsjónaraðili starfsins frá þeim tíma. Það var talið árangursríkast að hafa starfið innan vébanda ÍF í stað þess að stofna sérsamtök Special Olympiocs á Íslandi en krafa var um það að slíkt yrði gert eins og í öðrum löndum. Þegar fulltrúar SOI kynntu sér starfið á Íslandi 1989 heimsóttu þeir m.a. sundæfingar hjá Ösp þar sem Sigrún Huld Hrafnsdóttur, afrekskona og gullverðlaunahafi á Paralympics sýndi listir sínar. Þetta varð mjög eftirminnileg heimsókn þar sem þeir höfðu aldrei séð einstaklinga með þroskahömlun í svona strangri þjálfun og góðu formi í sundíþróttinni. Sama gilti um aðrar greinar, Ísland var mun lengra komið en önnur lönd varðandi þjálfun einstaklinga með þroskahömlun og nokkrir í þeim hópi höfðu náð lágmörkum á Paralympics. Innan Special Olympics samstakanna fór þjálfun erlendis í mörgum tilvikum fram undir stjórn áhugasamra foreldra.Eftir heimsókn fulltrúa SOI hingað til lands fékk ísland undanþágu til að hafa starfsemi SOI undir hatti ÍF og svo er enn. Í dag hafa gæði þjálfunar aukist um allan heim og mikil áhersla er á að gæði þjálfunar fyrir þennan hóp sé jafn góð og fyrir aðra iðkendur.    

Það var áberandi þá og er jafnvel enn  innan aðildarlanda Special Olympics Int. að fólk veit ekki af því að einstaklingar með þroskahömlun taka þátt í greinum á Paralympics. Fólk veit ekki af því að stór hópur fólks með þroskahömlun um allan heim er að stunda strangar æfingar til að reyna að ná  lágmörkum á Paralympics. Margt mjög efnilegt íþróttafólk í þessum löndum  fær aldrei tækifæri til að stefna langt og feta stig afreksíþrótta en það er auðvitað allt annað viðmið en keppni innan Special Olympics Int. þar sem allir fá að taka þátt og allir fá verðlaun. 

Starf Special Olympics samtakanna á heimsvísu er mjög athyglisvert og útbreiðsla starfsins heldur áfram með nýjum áherslum á hverju ári. Nú er sérstök áhersla lögð á blöndun eða unified og samstarf við heilbrigðiskerfið þar sem margvíslegar mælingar eru gerðar á heilsufari iðkenda á alþjóðaleikum SOI. Á Covid tímabilinu var stöðugt flæði upplýsinga og fræðsluefnis sent út til aðildarlanda SOI og mjög skýrar línur lagðar gagnvart æfingum og mótahaldi aðildarlanda. Einstaklingsmiðað efni fyrir heimaæfingar var fjölbreytt og stöðugt flæði myndbanda milli landa þar sem sýnt var frá iðkendum að æfa sig heima á Covid tímum.  Það má hrósa samtökunum fyrir sitt framlag á þessum mánuðum.