TVEIR ÚTIVISTARSTÓLAR TIL ÚTLÁNS HJÁ ÍF


TVEIR ÚTIVISTARSTÓLAR TIL ÚTLÁNS HJÁ ÍF      

Nú geta áhugasamir óskað eftir að fá lánaðan útivistarstól hjá ÍF. Stóllinn er lánaður öllum þeim sem ekki geta farið um á ósléttu undirlagi en langar til að fara út í  náttúruna með fjölskyldu eða vinum. Reynt verður að hafa útlán þannig að stóllinn fari frá manni til manns og verði sem minnst í geymslu. Börn og fullorðnir geta nýtt þessa stóla. Skíði fylgir með stólnum sem sett er á framhjólið þegar fer að snjóa þannig að þetta er heilsárstæki. 

Aðstoðarmaður þarf að ýta stólnum en meginmarkmið er að allir geti komist út fyrir malbikið og upplifað skógarstíga, fjörur og aðra útivistarstaði með fjölskyldu og vinum..Stólarnir hafa verið notaðir í Reykjavíkurmaraþoni en henta best til notkunar utan malbiksins og eru hannaði með það að markmiði að allir komist af malbikinu.

Umsóknir um útivistarstólinn má senda á annak@ifsport.is  Gefa upp nafn og síma og tímabil sem óskað er eftir að fá stólinn að láni. 

 

Til upplýsinga um útivistarstól ÍF

Árið 2009 var söfnunarátak á vegum  Bylgjunnar í samstarfi við ÍF þar sem safnað var fyrir kaupum á sérhönnuðum útivistarstólum fyrir hreyfihamlaða. Þessir stólar eru miðaðir við að aðstoðarmaður sé með í för sem ýtir stólnum. Stóllinn getur farið um fjörur og sand, vatn og sjó og útivistarstíga og umhverfi sem venjulegur hjólastóll kemst ekki um.

Það var Heimir Karlsson útvarpsmaður sem stóð fyrir söfnuninni  en ÍF kynnti fyrir honum fyrsta útivistarstólinn sem kom til landsins árið 2009. Það var Svanur Guðmundsson sem prófaði fyrsta stólinn í sandinum í Nauthólsvík.en óskað hafði verið aðstoðar fjölmiðla við að kynna stólinn. Heimir Karlsson mætti þar og fékk að upplifa sjálfur að venjulegur hjólastóll gefur ekki færi á fjöruferð. Heimir var ákveðinn í að aðstoða ÍF við að fá til landsins fleiri útivistarstóla og sett var af söfnun á Bylgjunni þar sem náðist að safna fyrir kaupum á 11 stólum. Þeir voru afhentir ýmsum aðilum víða um land en skilyrði voru frá ÍF að stólarnir yrðu lánaðir út án endurgjalds til að virkja fólk til útivistar. Ekki hefur tekist að hafa yfirsýn yfir alla stólana en margir hafa verið vel nýttir, aðrir hugsanlega í geymslu án þess að fólk viti af þeim.  Stólarnir eru hannaðir af Paul Speight hjá Spokes´n in Motion. Hann er sjálfur hreyfihamlaður og er sífellt að þróa nýjan búnað sem getur gefið ný tækifæri. ÍF hefur verið í samstarfi við Paul vegna uppbyggingar vetraríþrótta og þróunar nýrra greina og nýjustu samstarfsverkefni tengjast hjólreiðum þar sem hann hefur verið að sérhanna hjól fyrir Íslendinga sem ætla sér langt í hjólreiðum og stefna á Paralympics. 

Á myndunum eru Heimir Karlsson og Svanur Ingvarsson í Nauthólsvík 2009 og Elma Guðmundsdóttir frá Ísafirði að fagna nýrri upplifun úti í náttúrunni.