Haukur og Michel hlupu 10 km saman


Frjálsíþróttamennirnir Haukur Gunnarsson og Michel Masselter eru í hörku formi þessi dægrin og hafa verið duglegir að halda sér við þrátt fyrir takmarkanir vegna COVID19. Í gær tóku þeir sig til og hlupu saman 10 kílómetra. Haukur er enn að æfa og er nú að æfa með frjálsíþróttadeild Ármanns en Michel æfir með Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík (ÍFR).


Báðir eru þeir Haukur og Michel í flokkum hreyfihamlaðra en í frjálsum í þróttum eru flokkar þeirra fyrir einstaklinga með CP og eru F/T 35-38. Algengustu hlaupavegalengdir í þeim flokki eru 100,200 og 400 metra hlaup. Þeir félagar tókust á við 10 kílómetrana í gær og var ekki annað að sjá en að þessir öflugu kappar hafi klárað þetta verkefni með sóma eins og þeim einum er lagið.


Um aldarfjórðungur skilur að Hauk og Michel í aldri en þeir mættust þó á síðasta Íslandsmóti í Kaplakrika sem fram fór innanhúss. Haukur var hér á árum áður einn fremsti íþróttamaður þjóðarinnar í íþróttum fatlaðra og er m.a. marfaldur verðlaunahafi frá Evrópu, - heims, - og Ólympíumótum. Michel hefur lagt sinn íþróttagrunn í sundi en á síðustu árum hefur hann látið enn frekar að sér kveða í frjálsum.


Haukur komst vel að orði á Facebook-síðu sinni í gær þegar hann sagði um hlaupið: „Ég hef aldrei hlaupið með hreyfihömluðum einstaklingi þessa vegalengd. Við hlupum frá Nauthólsvík að Seltjarnarnesi og til baka. Þetta var magnað og einstakt.“


Mynd/ Haukur t.v. og Michel t.h. eftir gott 10 km hlaup í gær.