Frá fagteymi ÍF: Hollráð á tímum COVID19


Fyrstu Covid-19 smitin hér á Íslandi voru greind í lok febrúar og skömmu síðar hófust takmarkanir á samskiptum manna á milli í námi, starfi og félagslífi hvers konar.


Flestum finnst efalaust að það sé heil eilífð síðan hömlurnar voru settar á. Því miður eru miklar líkur á að ástandið muni vara miklu lengur og það er því mikilvægt að sætta sig við það og reyna að gera eins gott og hægt er úr hlutunum. „Þríeykið” eins og Þórólfur sóttvarnarlæknir, Alma landlæknir og Víðir yfirlögregluþjónn eru kölluð hafa það hlutverk að vinna gegn útbreiðslu sýkingarinnar og að vernda viðkvæma hópa eins og aldraða, fatlaða og/eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Því miður þá geta einnig hraustir einstaklingar veikst og farið illa út úr veikinni, sem betur fer ná sér flestir. 

Mikilvægt er að allir reyni að mæta ástandinu með jákvæðu hugarfari. Það er lítið gagn í að leyfa sér að verða þreyttur á ástandinu og pirringur út í þá sem stýra aðgerðum gagnast engum. Það er mjög mikilvægt að enginn fari að slaka á og reyni að sniðganga eða brjóta settar reglur.

Það má líta á „þríeykið“ sem þjálfarateymi í boltaleik og okkur hin sem liðsmenn. Heilbrigðisþjónustan er markmaðurinn. Þjálfararnir leggja upp leikskipulag fyrir liðið. Það er mikilvægt að fylgja skipulaginu, jafnvel þó manni sjálfum hugnist betur eitthvað annað skipulag, annars fer leikurinn alveg úr böndunum og allt í rugl. Mikivægt er að þétta vörnina til að fækka skotum á markið og gera þau viðráðanlegri fyrir markmanninn (heibrigðiskerfið) og fá þannig sem fæst mörk á sig  (alvarleg veikindi og dauðsföll). Út á þetta ganga aðgerðir „þríeykisins“.

Leikskipulagið gengur út á að fækka og hægja á smiti með „smitgát“ en með henni er reynt að hindra kórónu- veiruna í að breiðast út á meðal fólks og að lokum að útrýma henni. Það er gert með því að vera nákvæmur með hreinlæti til að fyrirbyggja snertismit og að varast mikla nánd við annað fólk til að fyrirbyggja úðasmit manna á milli.


Á meðan ástand þetta (leikurinn) varir er mikilvægt að huga sem best að sjálfum sér og sínum til að hafa sem mesta ánægju af og úthald í „leikinn“. Það má gera ráð fyrir að það verði margar framlengingar og leikurinn dragist á langinn.


Mikilvæg atriði fyrir hvern og einn eru:

1.       Halda í lífsgleðina og virknina

2.       Gæta að heilsunni

3.       Halda sér í góðu formi

Allt þetta þrennt helst í hendur. Góð ráð til að efla þessa þætti eru þessi helst:
 

1.       Halda góðri reglu í daglegum athöfnum.

2.       Sofa 7-9 klst helst á tímabilinu 23-08. Stuttur miðdagslúr er í lagi

3.       Borða á reglulegum matmálstímum 3-5 sinnum á dag og helst ekki að narta þess á milli.

4.       Borða fjölbreytta „holla“ fæðu úr sem flestum fæðuflokkum. Grænmeti og ávextir eru sérstaklega     mikilvæg.

5.       Taka sér eitthvað fyrir hendur. Það getur verið bóklestur og skrif, tónlist, að spila, syngja eða semja lög, myndlist og handavinna eða smíðar, laga og gera við heima svo eitthvað sé nefnt. Það er sérstaklega mikilvægt að það bíði manns verkefni þegar maður vaknar, annars er hætt við að maður leggist á hina hliðina.

6.       Hreyfa sig reglulega og þjálfa. Útivist er mjög góð fyrir þá sem geta og ekkert sem mælir á móti henni ef gætt er að 2 metra nálægðarreglunni. Þeir sem eru með vöðvastífleika og skertan hreyfanleika í liðum ættu að nota tækifærið og gera teygjuæfingar og liðkandi æfingar. Íþróttafólk getur fengið æfingaplan hjá þjálfaranum sínum.


Með þessu móti ætti tíminn að líða hraðar, Covid-19 að angra minna, heilsa, þrek og almenn líðan að haldast sem best. Þannig er minni hætta á að maður þreytist eða gefist upp á ástandinu.


Maður verður líka betur í stakk búinn til að takast á við það sem tekur við þegar Covid aðgerðum lýkur og þjálfarateymið, „þríeykið“, verður leyst upp.
 

Ítarlegar upplýsingar um Covid veiruna og það sem tengist henni má finna á vef www.covid.is og á vef landlæknis www.landlaeknir.is

                                                                                                             Ludvig Guðmundsson

                                                                                                                                    Fagteymi ÍF