Andrew Parsons forseti IPC í opinberri heimsókn á Íslandi


Síðustu tvo sólarhringa hefur Andrew Parsons forseti Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) verið í heimsókn á Íslandi. Vera hans hér er liður í heimsóknaferð hans um Norðurlöndin en næst heldur hann til Noregs og þaðan til Svíþjóðar.


Parsons eins og svo margur erlendur gesturinn kom við í Bláa Lóninu sem er einn af aðalsamstarfsaðilum Íþróttasambands fatlaðra og þá koma hann einnig við hjá Össuri sem hefur verið einn helsti samstarfsaðili ÍF í hart nær þrjá áratugi. Einnig átti hann fund með Mennta-, menningar, - og íþróttamálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur, félags- og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni og forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur.


Að Bessastöðum mættust svo tveir forsetar sem eru einkar áhugasamir um íþróttir og áttu þeir Parsons og Hr. Guðni Th. Jóhannesson gott spjall um íþróttalífið á Íslandi og marg fleira.


Parsons fékk glögga sýn inn í íslenskt íþróttalíf þar sem hann sat fyrirlestra hjá bæði ÍF og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og taldi hann margt í starfseminni á Íslandi sem önnur lönd og IPC gætu nýtt sér íþróttum fatlaðra til framdráttar. Hann var einnig ánægður með hve vel hið opinbera, sveitarfélög og einkageirinn hlúa að íþróttalífinu á Íslandi.


Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF sagði að heimsókn Parsons væri mikilvægur liður í því fyrir IPC að þekkja og skilja þau þjóðlönd sem mynda IPC og eins fyrir þjóðir eins og Ísland til að láta rödd sína heyrast. „Við á Íslandi höfum nú fengið alla þrjá forseta IPC frá upphafi í heimsókn hingað til lands og erum afar þakklát fyrir hve vel opinberir aðilar sem og einkageirinn hafa tekið vel á móti okkar gestum. Allir hafa forsetarnir fengið mjög skýra mynd af því hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni hér á Íslandi og hafa látið vel af þeirri uppbyggingu og virkni sem er í starfinu okkar."


Viðtal við Parsons á RÚV


Mynd/ Frá vinstri: Jón Björn Ólafsson íþrótta- og fjölmiðlafulltrúi ÍF, Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF, Andrew Parsons forseti IPC, Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF og Elissavet Abdelnour samhæfingarstjóri IPC.