Hákon á leið til Costa Brava


Borðtennismaðurinn Hákon Atli Bjarkason, ÍFR, tekur þátt í opna Costa Brava mótinu í marsbyrjun en hann heldur til Spánar þann 3. mars næstkomandi. Um er að ræða 40 punkta mót og von á fremsta borðtennisfólki heims við mótið.


„Þetta er bara liður í mínum undirbúningi fyrir Paralympics í París 2024,“ sagði Hákon sem hefur æft vel síðustu misseri. „Ég reikna með að flestir bestu spilarar heims verði í Costa Brava að undirbúa sig fyrir Paralympics í Tokyo,“ sagði Hákon en það er ljóst að hann á ekki möguleika á því að vinna sér inn sæti í Tokyo og því hefur hann ótrauður sett stefnuna á París 2024.


Hákon er tiltölulega nýkominn heim frá Malmö Open þar sem hann vann silfurverðlaun í tvíliðaleik ásamt liðsfélaga sínum Philip Brooks og svo vann hann til bronsverðlauna í sínum flokki sem er klassi 5. Eftir mótið í Costa Brava í mars liggur fyrir að Hákon keppi í Girona í júnímánuði og svo mögulega í Stokkhólmi eða Hollandi í nóvember.


Mynd/ Hákon Atli æfir nú af krafti fyrir mótið í Costa Brava.