Sundmenn á ferð og flugi í kappi við Tokyo-lágmörk


Frjálsíþróttafólk á leið til Dubai í mars

Afrekssundmenn úr röðum fatlaðra höfðu í nægu að snúast um síðustu helgi en þá keppti hluti þeirra á Reykjavik International Games í Laugardalslaug og hluti keppti á Skagerak sundmótinu í Noregi. Árangur íslensku sundmannanna á Skagerak-mótinu má sjá hér en alls unnu þau til átta verðlauna í Noregi.


Guðfinnur Karlsson, Thelma Björg Björnsdóttir og Már Gunnarsson tóku öll þátt á Skagerak sundmótinu í Noregi en Róbert Ísak Jónsson, Þórey Ísafold Magnúsdóttir, Hjörtur Már Ingvarsson og Sonja Sigurðardóttir voru á meðal keppenda á RIG.

Það skýrist með vorinu hvort og þá hvaða sundmenn hljóti sæti á Paralympics í Tokyo en nokkrir íslenskir sundmenn hafa þegar náð lágmörkum á leikana en jafnvel þó viðkomandi hafi náð lágmörkum tryggir það ekki þátttökurétt. Aðeins sundmenn með gull- eða silfurverðlaun á HM 2019 hafa fengið beinan þátttökurétt í Tokyo. Íþróttasamband fatlaðra kemur til með að tilkynna Tokyo 2020 hópinn sinn í sumarbyrjun en eins og sakir standa er beðið endanlegrar staðfestingar á úthlutunum sæta fyrir sundmenn sem og aðrar íþróttagreinar á Paralympics.


Í marsmánuði munu einnig þónokkrir frjálsíþróttamenn freista þess að skerpa á lágmörkum sínum fyrir Tokyo með þátttöku í Grand Prix mótaröð IPC sem fram fer í Dubai.