Nýárssundmót ÍF 4. janúar


Nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra fer fram í Laugardalslaug á morgun laugardaginn 4. janúar. Sérstakur heiðursgestur mótsins að þessu sinni er Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ).


Venju samkvæmt er það Sjómannabikarinn sem er afhentur við mótið en hann er afhentur fyrir besta sundafrekið samkvæmt stigareikningi. Það var Sigmar heitinn Ólason sjómaður frá Reyðarfirði sem gaf bikarinn til mótsins árið 1984. Frá árinu 1984 eru fimm sundmenn sem hafa unnið Sjómannabikarinn til eignar með sigri á mótinu þrjú ár í röð en það eru Birkir Rúnar Gunnarsson, Gunnar Örn Ólafsson, Guðrún Sigurðardóttir, Kolbrún Alda Stefánsdóttir og Róbert Ísak Jónsson.


Umgjörð mótsins verður eins og best er á kosið en skátar munu standa heiðursvörð og Skólahljómsveit Kópavogs mun spila fyrir gesti við upphitun.


Keppni hefst kl. 15.00 í Laugardalslaug en synt er í 25m langri laug. Þá hefst upphitun kl. 14.00. Hér má sjá keppendalista mótsins.

Mynd/ Frá Nýársmótinu 2019 þar sem Fjarðarliðinn Tanya Jóhannsdóttir vann Sjómannabikarinn.