Bæting hjá Stefaníu og Bergrúnu en missa naumlega af úrslitum


Báðar frjálsíþróttakonurnar Stefanía Daney Guðmundsdóttir og Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir bættu persónulegan árangur sinn á HM í Dubai í morgun en þrátt fyrir það urðu þær stöllur að fella sig við að missa af úrslitum í sínum greinum. Stefanía keppti í langstökki í flokki T20 en Bergrún í 200m hlaupi T37.


Stefanía Daney Guðmundsdóttir náði sínu lengsta stökki á árinu í alþjóðlegri keppni þegar hún stökk 4.81 metra í langstökkskeppni kvenna T20. Fram að HM í Dubai hafði Stefanía lengst stokkið 4.77 metra á heimsmótaröð IPC í Grosseto á Ítalíu. Stökkið upp á 4.81m kom í fyrstu tilraun en næstu tvö stökk voru 4.77m og 4.61m. Stefanía náði því ekki inn í úrslit til að taka seinni þrjú stökk keppninnar en síðasta manneskjan inn í úrslit var hin breska Martina Barber með stökk upp á 5.17 metra svo það er ljóst að það vantar ekki mikið upp á til að Stefanía fari að blanda sér í úrslitahópinn með þeim bestu í heiminum. Það var svo hin pólska Karolina Kucharczyk sem vann langstökkskeppnina á nýju heimsmeti þegar hún stökk 6.21 metra en hún átti fyrir heimsmetið sem var 6.14 metrar.
Úrslit langstökkskeppninnar


Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir náði sínum besta tíma í 200m hlaupi þegar hún kom í mark á 31,30 sek. en fyrir keppnina var hún skráð til leiks með tíma upp á 31,61 sek frá því á Evrópumeistaramótinu í Berlín sumarið 2018. Með tímanum sínum hafnaði Bergrún í 15. sæti af 18 keppendum en síðasti tíminn inn í úrslit 200m hlaupsins var 29,36 sek.
Úrslit undanrásanna í 200m hlaupi


Bergrún Ósk hefur því lokið leik á HM þetta árið með persónulega bætingu í langstökki og 200m hlaupi og þá náði hún sínum besta tíma á árinu í 100m hlaupi T37. Virkilega gott heimsmeistaramót að baki hjá þessum unga ÍR-ingi. Stefanía hinsvegar verður aftur á ferðinni í kvöld þegar hún keppir í undanrásum í 400m hlaupi og þá keppir Hulda Sigurjónsdóttir í kúluvarpi F20 kvenna.
 

*Við minnum á að hægt er að fylgjast með mótinu í beinni netútsendingu á Paralympi TV á Youtube.

Myndir/ Jón Björn - Efri mynd: Stefanía Daney Guðmundsdóttir í langstökkskeppni T20 kvenna og á þeirri neðri er Bergrún Ósk að koma í mark í 200m hlaupi T37 kvenna.