Besti tími ársins hjá Bergrúnu í undanrásum 100m hlaupsins


Frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, ÍR, náði í morgun besta tíma sínum á árinu þegar hún keppti í undanrásum í 100m hlaupi á heimsmeistaramóti fatlaðra sem nú stendur yfir í Dubai. Bergrún kom í mark á tímanum 14,97 sek. og hafnaði í 14. sæti af 16 keppendum í undanrásum.


Rétt eins og í langstökkskeppninni hjá Bergrúnu mætti hin kínverska Wen Xiaoyan til leiks og sló mótsmet strax í undanrásum þegar hún hljóp á tímanum 13.22 sek.


Bergrún var skráð til leiks með tímann 14,73 sek. en þeim tíma náði hún á Evrópumeistaramótinu í Berlín sumarið 2018. Eftir undanrásirnar í dag hefur Bergrún lokið við tvær af þremur greinum sínum en á morgun heldur hún svo í undanrásir í 200m hlaupi.


Úrslit undanrásanna í 100m hlaupi T37

Mynd/ Jón Björn - Bergrún á fleygiferð í Dubai.