Hákon með silfur í tvíliðaleik í Stokkhólmi


Borðtennismaðurinn Hákon Atli Bjarkason er nýkominn heim frá Stokkhólmi í Svíþjóð þar sem hann tók þátt í Stockholm Paragames. Hákon og meðspilari hans Philip Brooks lönduðu silfurverðlaunum í tvíliðaleik eftir að hafa tapað í oddalotu í úrslitaviðureigninni.


Í einstaklingskeppninni keppti Hákon svo í sínum flokki (flokkur 4-5 hjólastólar) og varð að fella sig við ósigur í undanúrslitum en þar sem enginn bronsleikur var á boðstólunum deildi hann bronsinu með þeim sem féll út í hinni undanúrslitaviðureigninni. Með Hákoni í för ytra var þjálfari hans Bjarni Þorgeir Bjarnason.