Ísland mætt með fjóra keppendur á Global Games


Næstu daga standa yfir Global Games í Brisbane í Ástralíu en leikarnir eru á fjögurra ára fresti á vegum INAS sem erum heimssamtök þroskahamlaðra íþróttamanna. Ísland teflir fram sterkum fulltrúum og þar á meðal verðlaunahöfum frá heims-, Evrópu,- og Ólympíumótum!


Jón Margeir Sverrrisson verður fyrstur Íslendinga til þess að keppa í hjólreiðum á Global Games en með honum í för er hjólreiðaþjálfari hans Hafdís Sigurðardóttir.


Í frjálsum íþróttum er Hulda Sigurjónsdóttir mætt til leiks en með henni í för er Melkorka Rán Hafliðadóttir þjálfari en Melkorka hefur síðustu ár tekið þátt í þónokkrum verkefnum á vegum Íþróttasambands fatlaðra.


Ísland teflir svo fram tveimur keppendum í sundi en það eru þau Róbert Ísak Jónsson og Þórey Ísafold Magnúsdóttir. Berglind Bárðardóttir er þjálfari sundfólksins okkar í ferðinni og hópstjóri.


Meðfylgjandi mynd var tekin af hópnum þegar hann lenti í Brisbane en á myndina vantar Þóreyju Ísafold sem er þegar þetta er ritað á leið sinni til Ástralíu. Með henni í för er Þórður Árni Hjaltested sem mun sitja aðalfund INAS sem fram fer jafnhliða leikunum og vitaskuld styðja við bakið á íslenska hópnum úr stúkunni.


Hér er hægt að nálgast Facebook-síðu Global Games
Hér er hægt að nálgast vefsíðu Global Games