Gerum okkar besta til að gera mótið sem glæsilegast


Íþróttafélagið Ívar, Ísafirði og nágrenni,  mun halda Íslandsmót í boccia um næstu helgi, 4.–6. október, og er það í þriðja skiptið sem félagið leggur í svo stórt verkefni sem Íslandsmóti er.


Íþróttafélagið Ívar annast framkvæmd mótsins í samvinnu við Íþróttasamband fatlaðra og er von á  155 keppendum frá 14 aðildarfélögum af öll landinu, auk þjálfara, fararstjóra og aðstoðarfólks.

Þetta stóra verkefni væri ekki mögulegt fyrir okkar litla félag ef ekki kæmi til kasta fjöldi sjálfboðaliða sem aðstoða okkur við undirbúning og mótshald. Einnig þökkum við öllum sem hafa styrkt okkur við þetta verkefni.

Undirbúningi er að ljúka en mótið verður sett á föstudagskvöldinu kl. 21:00 í íþróttahúsinu Torfnesi og þangað eru allir boðnir velkomnir. Að mótsetningu lokinni verður haldin flugeldasýning og hefur Ívar þegar lagt inn pöntun fyrir góðu veðri.

Bæjarbúar eru einnig hvattir til að koma og fylgjast með keppni á laugardeginum og sunnudeginum, en  keppni hefst kl 9:00 báða dagana og stendur fram eftir degi.

Ein af aðal ástæðum þess að Ívar ákvað að  taka að sér að halda Íslandsmótið  er að með því vekjum við athygli á starfi félagsins hér á svæðinu.

Núna eru nokkrir dagar í mótið og erum við hjá Ívari orðin mjög spennt að taka á móti keppendum, þjálfurum, fararstjórum og aðstoðarfólki og munum gera okkar besta til að gera mótið sem glæsilegast.

 

Harpa Björnsdóttir, formaður Íþróttafélagsins Ívars