Már með einu verðlaun Norðurlandanna á HM


10 Íslandsmet!

Heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi lauk í London um síðastaliðna helgi en mótið fór fram í Queen Elizabeth London Aguatics Centre. Flestir þekkja laugina sem keppnislaugina frá Paralympics 2012. Ísland var eina Norðurlandaþjóðin sem vann til verðlauna á HM þetta árið en það gerði Már Gunnarsson þegar hann tók bronsverðlaun í 100m baksundi á nýju Íslandsmeti. Már fór mikinn á mótinu og setti alls 10 ný Íslandmet og lagði gömul met að velli sem sum voru að verða þriggja áratuga gömul!


Þess má geta að þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem Ísland teflir fram tveimur keppendum í flokki S11 (blindir) en það voru kollegarnir Már Gunnarsson frá ÍRB og Guðfinnur Karlsson frá Firði.

Alls telfdi Ísland fram sex keppendum á mótinu en þeir voru Róbert Ísak Jónsson frá Firði/SH, Már Gunnarsson, ÍRB, Guðfinnur Karlsson, Firði, Hjörtur Már Ingvarsson Firði og svo Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir báðar frá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík.

Róbert Ísak kom í bakkann í 200m skriðsundi S14 á tímanum 2:02,29 mín. sem dugðu honum ekki inn í úrslit greinarinnar en S14 er flokkur þroskahamlaðra. Róbert Ísak hefur ekki sungið sitt síðasta þetta sundárið en í októbermánuði heldur hann út til Brisbane í Ástralíu þar sem hann mun keppa á Global Games INAS en INAS eru heimssamtök þroskahamlaðra íþróttamanna og halda samtökin Global Games fjórða hvert ár. Róbert varð svo ellefti í 100m bringusundi á tímanum 1:12.15 mín en Íslandsmet hans í greininni er 1:10,10 mín. Róbert Ísak keppti svo í 200m fjórsundi og varð ellefti í undanrásum á tímanum 2:17,43 mín. Róbert keppti einnig í 100m flugsundi en varð að láta sér lynda að verða eftir í undanrásum með tímann 1:00,09 mín.

Már Gunnarsson hóf leik í 50m skriðsundi þar sem hann bætti Íslandsmetið um tæpa sekúndu er hann kom í bakkann á 28,74 sek. Glæsilegt Íslandsmet sem dugði því miður ekki inn í úrslit greinarinnar. Bronsverðlaunin komu svo í hús í úrslitum í 100m baksundi þegar Már hafnaði í 3. sæti á tímanum 1:10,43 mín. Í baksundinu hafði Már sett nýtt Íslandsmet í undanrásum en bætti svo metið aftur í úrslitu um tæpa sekúndu. Þessi bronsverðlaun Más urðu einu verðlaunin sem allar Norðurlandaþjóðirnar unnu til á HM þetta árið. Í 200m fjórsundi hafnaði Már í 10. sæti í undanrásum og komst því ekki í úrslit en í 50m fluginu innan fjórsundsins setti Már nýtt Íslandsmet á millitímanum 34,42 sek. Þegar röðin kom að 100m skriðsundi þá réðist Már að sögubókunum því hann sló þar 24 ára gamalt met Birkis Rúnars Gunnarssonar þegar hann kom í bakkann á 1:03,65 mín sem var bæting um heilar tvær sekúndur! Þrátt fyrir frábært met í 100m skriðsundi dugði tíminn Má ekki inn í úrslit. Íslandsmetin héldu áfram að falla þegar Már mætti til leiks í 100m flugsundi, í undanrásum setti hann tvö met, fyrsta á millitíma í 50m sem var 32,57 sek og svo lokatíminn 1:11,12 mín. og þar með féll 25 ára gamalt met Birkis Rúnars Gunnarssonar. Már varð svo áttundi í úrslitum á tímanum 1:14,21 mín. Lokasundið hjá Má var 400m skriðsund þar sem hann var með fimmta besta tímann inn í úrslitin sem var 4:57,67 mín. og um leið bæting á 23 ára gömlu meti Birkis Rúnars Gunnarssonar um tæpar fimm sekúndur. Í úrslitum gerði Már gott betur og synti á 4:54,84 mín og bætti metið enn frekar frá undanrásum. Millitími Más á 200m í úrslitum var svo einnig nýtt Íslandsmet.

Thelma Björg Björnsdóttir hafnaði í 6. sæti í 100m bringusundi í flokki SB5 (hreyfihamlaðir) en hún kom þá í mark á tímanum 1:56,78 mín. Thelma Björg varð svo í 11. sæti í 100m skriðsundi en varð svo fyrir því óláni að gera ógilt í 200m fjórsundi. Thelma varð einnig að sitja eftir í undanrásum í 50m skriðsundi þar sem hún hafnaði í 11. sæti á tímanum 40,67 mín.

Hjörtur Már Ingvarsson keppti í einni grein á mótinu en það var í 200m skriðsundi í flokki S5. Hjörtur varð í 11. sæti og náði því ekki í úrslit greinarinnar.

Guðfinnur Karlsson hafnaði í 15. sæti í 100m baksundi sem var jafnframt hans fyrsta sund á heimsmeistaramóti á ferlinum. Hans fyrsta stórmót var sumarið 2018 þegar Guðfinnur keppti fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótinu í Dublin á Írlandi. Þá varð Guðfinnur fimmtándi í 100m bringusundi á tímanum 1:28,01 mín. Guðfinnur lauk svo keppni í 400m skriðsundi í 15. sæti þegar hann kom í mark á tímanum 5:4,62 mín.

Sonja Sigurðardóttir varð fyrsti varamaður inn í úrslit þegar hún hafnaði í 9. sæti í undanrásum í 100m skriðsundi í flokki S4 (hreyfihamlaðir). Full mæting var í úrslitasundið svo Sonja komst ekki að í úrslitahlutanum. Sonja hafnaði í 10. sæti í undanrásum í 50m baksundi en hún kom þá í mark á tímanum 1:05,88 mín. en Íslandsmet hennar í greininni er 59,97 sek. Sonja varð einnig að sitja eftir í undanrásum í 50m skriðsundi.

Íslandsmet sett á HM 2019

HM                                        London, England                 9. - 15. sept

Már Gunnarsson                    S11      50  frjáls aðferð          0:28,74            09/09/19

Már Gunnarsson                    S11      100 baksund               1:11,40            10/09/19

*Már Gunnarsson                    S11      100 baksund               1:10,43            10/09/19

Már Gunnarsson                    S11      50 flugsund                0:34,42            12/09/19

Már Gunnarsson                    S11      100  frjáls aðferð        1:03,65            13/09/19

Már Gunnarsson                    S11      50 flugsund                0:32,48            14/09/19

Már Gunnarsson                    S11      100 flugsund              1:11,12            14/09/19

Már Gunnarsson                    S11      400  frjáls aðferð        4:57,67            15/09/19

Már Gunnarsson                    S11      200  frjáls aðferð        2:22,94            15/09/19

Már Gunnarsson                    S11      400  frjáls aðferð        4:54,84            15/09/19

 

 

*Brons í 100 m baksundi

Mynd 1: Íslenski hópurinn kom heim í gær en Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF tók á móti hópnum í Leifsstöð ásamt Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra afreks- og fjármálsviðs ÍF.
Mynd 2: Feðgarnir Már Gunnarsson og Gunnar Már Másson sáttir og sælir með árangurinn í London.