Myndband: Már með brons og nýtt Íslandsmet í London


Már Gunnarsson vann í kvöld sín fyrstu verðlaun á alþjóðlegu stórmóti þegar hann hafnaði í 3. sæti í 100m baksundi á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi í London.


Már átti besta tímann í undanrásum og setti þar nýtt Íslandsmet í flokki S11 (blindir) þegar hann kom í bakkann á 1.11.40 mín. Már stórbætti svo metið í úrslitum í kvöld þegar hann synti á 1.10.43 mín. Úkraínumaðurinn Viktor Smyrnov varð heimsmeistari á tímanum 1.09.07 mín. og Hollendingurinn Rogier Dorsman varð annar á 1.09.46 mín.

Már setti í gær annað Íslandsmet en það var í 50m skriðsundi þegar hann synti á 28,74 sekúndum en sá tími dugði honum ekki inn í úrslit.

Hjörtur Már Ingvarsson keppti einnig í 200m skriðsundi í kvöld í flokki S5 (hreyfihamlaðir) og kom í bakkann á tímanum 3.16.61 mín en sá tími dugði honum ekki inn í úrslit. Þetta var eina grein Hjartar á mótinu sem nú hefur lokið keppni.

Thelma Björg Björnsdóttir keppti einnig í undanrásum í 100m skriðsundi og var á tímanum 1.29.26 mín. sem dugði henni ekki til þátttöku í úrslitum.

 

Úrslitasundið hjá Má




Verðlaunaafhendingin - Már tekur við bronsinu