Ísland á HM í sundi: Hjörtur Már Ingvarsson


Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi fer fram í London dagana 9.-15. september næstkomandi. Ísland mun eiga sex keppendur á mótinu og á næstu dögum kynnum við alla okkar keppendur til leiks. Við hefjum leik í Hafnarfirði hjá Hirti Má Ingvarssyni úr Íþróttafélaginu Firði. Hjörtur náði lágmarki fyrir 200m skriðsund í flokki S5 (hreyfihamlaðir) en það verður eina grein Hjartar á mótinu.


Hvernig hefur undirbúningurinn fyrir HM gengið í sumar?
Undirbúningurinn er búinn að vera mjög erfiður en líka mjög skemmtilegur. Það gengur mjög vel og ég get með góðu móti sagt að lokaútkoman lofar góðu.


Með þátttökunni í London, hvað verður þú þá búinn að taka þátt í mörgum stórmótum á borð við EM og HM?
Með þessari þátttökuu verð ég búinn að taka þátt í fimm stórmótum, þremur heimsmeistaramótum og tveimur Evrópumeistaramótum.


Þú ert skráður í eina grein á mótinu, 200m skriðsund S5. Hvernig líst þér á keppnina í þeirri grein og almennt í flokki S5?
Keppnin verður mjög erfið í 200m skriðsund en ég ætla bara að hugsa um að bæta mig og bæta Íslandsmetið mitt sem og auðvitað koma mér ofar á heimslistanum. S5 flokkurinn er orðinn miklu betri en hér áður svo það hvetur mig bara til þess að verða enn betri sjálfur og fagna allri keppni.


Hverjir eru fremstu S5 sundmenn heims í dag?
Topp þrír eru ítölsku félagarnir Francesco Bocciardo og Antonio Fantin og Spánverjinn Antoni Ponce Bertran. Ég sé fyrir mér góða keppni milli þeirra á HM.

Hvernig líst þér á möguleika hinna íslensku sundmannanna á HM?
Möguleikgar hinna víkinganna eru mjög góðir, við erum með að minnsta kosti tvo sundmenn sem ættu að berjast um verðlaun og vonandi tekst það.

Heimasíða HM hjá IPC