Ármann sigurvegari liðakeppninnar og fjöldi meta féll í Kaplakrika


Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum fór fram í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina. Veðurguðirnir léku við hvurn sinn fingur og íþróttafólkið þakkaði pent fyrir sig með miklum bætingum og þónokkrum metum.


Ármenningar urðu sigurvegarar í liðakeppni með 12 gullverðlaun og ein silfurverðlaun á mótinu og þá er gaman að segja frá því að hlauparinn Patrekur Andrés Axelsson er óðar að nálgast sitt besta form eftir langvarandi meiðsli og hljóp við sína bestu tíma í 100m og 200m spretthlaupi. Meðhlaupari Patreks um helgina var Helgi Björnsson en síðar í júlímánuði munu þeir félagar láta að sér kveða á opna pólska meistaramótinu.


Hulda Sigurjónsdóttir setti svo nýtt Íslandsmet í kúluvarpi F20 kvenna (þroskahamlaðir) þegar hún varpaði kúlunni 10.31m og setti einnig nýtt met í sleggjukasti (30,10 m). Þá sigraði Hulda einnig í kringlukasti og varð önnur í spjótkasti með kasti upp á 24,24 m.


Stefanía Daney Guðmundsdóttir rauf fimm metra múrinn í langstökki kvenna F20 (þroskahamlaðir) þegar hún stökk 5,07 metra sem er nýtt Íslandsmet! Þá bætti hún einnig metin sín í 100m og 200m hlaupi.


Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir bætti svo metið í spjótkasti (500gr) í flokki F37 (hreyfihamlaðir) þegar hún kastaði spjótinu 21,69 m og þá hjó hún nærri Íslandsmetinu í sama flokki í langstökki þegar hún stökk 4,26m en metið á Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir sem er 4,28 m.


Nánar um mótið er hægt að sjá á Facebook-síðu ÍF og hér má sjá úrslit mótsins.

Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í að framkvæma mótið en það tókst einkar vel til.
 

Mynd/ Kári Jónsson - Veðurblíðan lék við keppendur á Íslandsmóti ÍF í frjálsum um helgina.