Þorsteinn mætir sterkum Finna í útslætti á morgun


Heimsmeistaramót fatlaðra í bogfimi stendur nú yfir í Hollandi þar sem Þorsteinn Halldórsson er fulltrúi Íslands við mótið. Með honum í för er Ingi Þór Einarsson annar tveggja yfirmanna landsliðmála hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Áhugasömum er bent á að hægt er að fylgjast með þeim félögum á Snapchat-reikningi ÍF, ifsport.


Í gær landaði Þorsteinn 645 stigum og mætir Ólympíumeistaranum Jere Forsberg frá Finnlandi í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar á morgun. Hér að neðan má sjá samantekt frá gærdeginum eftir Inga Þór Einarsson:


Jere Forsberg vinur okkar frá Finnlandi og Paralympic meistarinn frá því 2012 lenti í því að fá 0 fyrir eina örina sína þegar upp kom bilun í boganum hans. Það tók hann nokkrar örvar að jafna sig á þessu og hann endaði í 45. sæti en ekki í einu af þremur efstu eins og hann er vanur. Okkar maður Þorseinn Halldórsson byrjaði hins vegar með látum og var á góðum stað eftir 48 örvar af 72 og allt leit vel út hvað sæti og lágmark til Tokyo varðar. Þá tók Steini hins vegar skot sem endaði í 10, en í skífunni við hliðina á hans skífu. Hann miðaði semsagt hárrétt en á rangt mark. Það þýðir 0 fyrir þá ör. Það tók smá tíma að jafna sig á þessum mistökum, en hann endaði með því að fá 58 stig af 60 mögulegum fyrir seinasta settið og endaði með 645 stig. Skorið var betra en á Ítalíu fyrr í vor þrátt fyrir að aðeins voru 71 ör í þetta skiptið, en aftur rétt undir Paralympic lágmarkinu sem er 650 stig.

Þetta er þó ekki allt búið. Steini keppir á miðvikudaginn í undanúrslitum á HM, reyndar á móti Finnanum áðurnefnda, sem þarf í fyrsta skipti í mörg ár að keppa í fyrstu umferð útsláttarkeppninni, en ekki að sitja hjá eins og hann er vanur. En þetta eru bara 15 örvar og bæði Steini og Finninn byrja með 0 stig, svo það er nákvæmlega engu að tapa fyrir Steina. Á föstudaginn er svo sérstök útsláttarkeppni fyrir Tokyo sem Steini mun líka taka þátt í, svo það er nóg eftir hjá okkur hérna.


Mynd/ World Archery - Frá æfingu hjá Þorsteini í Hollandi.