Vel heppnað fertugsafmæli ÍF í Súlnasal


Íþróttasamband fatlaðra fagnaði 40 ára afmæli sambandsins í Súlnasal á Radisson Blu Hóteli Sögu á afmælisdaginn 17. maí síðastliðinn. Fjölmargir lögðu leið sína í Súlnasal og var einkar gaman að sjá hve margir af fyrrum afreksmönnum Íslands úr röðum fatlaðra sáu sér fært um að mæta en víða um Súlnasal urðu fagnaðarfundir.


Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók til máls sem og Ásmundur Einar Daðason velferðar- og barnamálaráðherra. Fjölmargar gjafir og blómasendingar bárust sambandinu í tilefni af afmælinu og vill ÍF koma á framfæri innilegu þakklæti til allra fyrir þeirra myndarlegu sendingar. Ásmundur Einar afhenti Þórði Árna Hjaltested fyrir hönd ÍF styrk í tilefni af afmælinu frá ríkisstjórninni en styrknum á að verja í íþrótta- og ævintýrabúðir fyrir fötluð börn og ungmenni í sumar. Þórður Árni lét krók mæta bragði og sæmdi Ásmund Einar gullmeriki Íþróttasambands fatlaðra.


Afmælishófið lukkaðist vel í alla staði en sund- og tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson opnaði hófið með ljúfum tónum og frábærum söng en Már gaf nýverið út sína fyrstu hljómplötu.


Mynd/ Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF, Halldór Sævar Guðbergsson gjaldkeri ÍF og Ásmundur Einar Daðason velferðar- barnamálaráðherra.