Öll kurl komin til grafar hjá Róberti og IPC


Opna breska meistaramótið í sundi fór fram í Glasgow á dögunum. Sjö íslenskir keppendur tóku þátt í mótinu og þeirra á meðal var Róbert Ísak Jónsson sem fékk við mótið afhent verðlaun sem hann vann til á síðasta ári.


Í fyrra urðu þau leiðu mistök að stig sem Róbert hafði unnið sér inn á Para World Swimming Series skiluðu sér ekki í hús en eftir að það var leiðrétt var ljóst að Róbert hafði hlotið titilinn „Best male junior athlete“ á mótaröðinni 2018.


Í Glasgow nú fyrir skemmstu fékk Róbert sigurlaunin svo loksins afhent en þessi nafnbót var á meðal fjölda afreka sem Róbert vann til á sundárinu 2018:


   - sett heims- og Evrópumet í 400m fjórsundi í flokki S14
   - sett 18 Íslandsmet
   - vann 14 Íslandsmeistaratitla
   - varð tvöfaldur bikarmeistari í sundi
   - vann tvenn silfurverðlaun á Evrópumóti fatlaðra í sundi
   - vann Sjómannabikarinn á Nýársmóti ÍF þriðja árið í röð


Mynd/ Róbert Ísak á opna breska í Glasgow 2019 með sigurlaunin sem besti ungi íþróttamaðurinn á sundmótaröð IPC árið 2018.