Heimsmeistaramótið í sundi fer fram í London


Þá hefur Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra tilkynnt hvar heimsmeistaramót fatlaðra í sundi 2019 muni fara fram en London varð fyrir valinu. Upphaflega stóð til að mótið færi fram í Malasíu en þar sem yfirvöld þar í landi ákváðu að veita Ísraelsmönnum ekki vegabréfsáritanir ákvað IPC að rifta HM-samningi sínum við Malasíu. Nokkuð óvissuástand hefur ríkt til þessa um heimsmeistaramótið sem nú hefur endanlega verið eytt.


HM í sundi 2019 mun því fara fram í Queen Elizabeth sundlauginni, þeirri sömu og keppt var í á Paralympics 2012 en þaðan eiga Íslendingar góðar minningar eftir sigur Jóns Margeirs Sverrissonar í 200m skriðsundi þroskahamlaðra.


Mótið fer fram dagana 9.-15. september en nánari upplýsingar um mótið sjálft er að vænta á næstu dögum og vikum.


Mynd/ Jón Margeir nýkominn úr lauginni eftir sigur í 200m skriðsundi á Paralympics 2012 í Queen Elizabeth lauginni.