Hilmar dæmdur úr leik í seinni ferðinni


Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson hefur lokið keppni í Morzine í Frakklandi á síðasta heimsbikarmóti IPC í alpagreinum þetta tímabilið. Hilmar var þriðji eftir fyrri ferðina í morgun þar sem hann skíðaði gríðarlega vel.


Í síðari ferðinni fór Hilmar vel af stað en um miðja braut fipaðist hann og datt og fór ekki rétt í gegnum eitt hlið og var þar af leiðandi dæmdur úr leik. Hilmar náði því ekki að ljúka þessum tveimur svigkeppnum í Frakklandi en hann er engu að síður að loka núna stærsta tímabili sínu sem skíðamaður.


Þórður Georg Hjörleifsson þjálfari Hilmars hjá Skíðadeild Víkings sagði við Ifsport.is að þeir félagar væru heilt yfir ánægðir með framganginn á tímabilinu en í vetur varð Hilmar fyrstur Íslendinga til þess að sigra á móti innan heimsbikarmótaraðar IPC og er kominn á meðal topp 10 skíðamanna í svigi í flokki standandi keppenda.


Þeir Hilmar og Þórður eru væntanlegir heim til Íslands á morgun þar sem þeir munu væntanlega taka sér vel þegna hvíld áður en farið verður í að teikna upp næstu vertíð en með punktastöðu sinni eftir veturinn er Hilmar nokkuð öruggur þátttakandi á öllum stærstu mótum IPC á næsta tímabili.