Hekla og Arna Dís fyrstar í nútímafimleikum: Fjallið í Abu Dahbi


Nóg hefur verið við að vera síðustu daga hjá íslenska hópnum á heimsleikum Special Olympics í Abu Dahbi. Söguleg varð þátttaka Örnu Dísar Ólafsdóttur og Heklu Bjarkar Hólmarsdóttur í nútímafimleikum en þar unnu þær til gull- og silfurverðlauna. Stelpurnar urðu fyrstar Íslendinga til að keppa í nútímafimleikum á heimsleikunum og það með glæsibrag en Arna fékk gullverðlaun í þrepi 1 og Hekla silfur í þrepi 2!


Þá varð íslenski hópurinn svo heppinn að rekast á aflraunamanninn og leikarann Hafþór Júliús Björnsson einnig þekktur sem „Fjallið.“ Hafþór veitti m.a. verðlaun við leikana svo það hefur margt á daga hópsins drifið undanfarið. Sjónvarpsþátturinn „Með okkar augum“ hefur einnig verið úti í Abu Dahbi og má sjá afrakstur þeirra um páskana þar sem heimsleikunum verða gerð skil í tveimur sjónvarpsþáttum.


Árangur hópsins hefur ekki látið á sér standa en á keppnum Special Olympics er raðað í styrkleikaflokka til að tryggja að allir þátttakendur fái viðeigandi keppni. Íslenski hópurinn hefur til þessa unnið sex gullverðlaun, fimm silfurverðlaun og sex bronsverðlaun. Þá hefur Ísland átt alls 21 keppanda sem hafnað hafa í sætum 4-8.


Fararstjórar íslenska hópsins ytra hafa verið duglegir að setja inn mydnir og fleira á Facebook-síðu ÍF sem og á Snapchat en þar er hægt að fylgjast með þeim á: ifsport


Hér má svo fylgjast með gengi íslenska hópsins og framvindu hvers íþróttamanns.


Myndir/ Efri mynd: Hekla í keppnishöllinni þar sem nútímafimleikarnir fóru fram og á neðri myndinni eru Hafþór Júlíus Björnsson og Arna Dís Ólafsdóttir.