Fjögur Íslandsmet á Stórmóti ÍR síðastliðna helgi


Stórmót ÍR í frjálsum innanhúss fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um síðstu helgi. Frjálsíþróttafólkið Stefanía Daney Guðmundsdóttir og Jón Margeir Sverrisson settu alls fjögur ný Íslandsmet á mótinu! Bæði keppa þau í flokki F/T 20 (þroskahamlaðir).


Stefanía Daney Guðmundsdóttir bætti met sín í 60m og 200m hlaupum. Hún hljóp 60m á 8,70 sek og bætti sig úr 8,84 sek. Í 200m bætti hún met sitt úr 30,69 sek í 28,71 sek.


Jón Margeir Sverrisson sem nú keppir fyrir Eikina á Akureyri bætti Íslandsmetin í 60m og 200m. Í 60m bætti Jón Margeir met Kristófers Sigmarssonar úr 7,85 sek í 7,81 sek og í 200m bætti hann eigið met úr 26,43 sek í 25,62 sek. Þau æfa nú bæði undir leiðsögn Gísla Sigurðssonar og greinilega í mikilli framför.


Á sama móti keppti Hulda Sigurjónsdóttir undir merkjum Ármanns i fyrsta skipti og varpaði kúlunni 9,72m. Þá keppti Emil Steinar Björnsson einnig fyrir Ármann og varpaði kúlunni 8,28m. Sigríður Sigurjónsdóttir varpaði kúlunni 6,80m. Þá keppti Erlingur Ísar Viðarsson FH í 60m hlaupi á 9,44 sek, 200m á 31,12 sek og 400m á
73,33 sek.

Mynd úr safni/ Stefanía Daney í keppni í langstökki á EM í frjálsum sumarið 2018.