Tanya vann Sjómannabikarinn 2019


Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga er lokið þar sem Fjarðarkonan Tanya Jóhannsdóttir vann Sjómannabikarinn 2019 fyrir stigahæsta sund mótsins. Tanya keppir í flokki S7 (hreyfihamlaðir). Þetta er fjórða árið í röð sem sundmaður úr röðum Fjarðar í Hafnarfirði vinnur Sjómannabikarinn en síðustu þrjú ár á undan vann Róbert Ísak Jónsson besta afrek mótsins. Róbert fékk við mótið afhentan eignarbikar fyrir afrek síðustu þriggja ára.


Besta afrek mótsins vann Tanya í 50m skriðsundi þegar hún synti á tímanum 39,50 sek. og hlaut fyrir vikið 587 stig (1000 stig eru jafngildi heimsmets í flokki S7).

Hr. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra var heiðursgestur mótsins og afhenti öllum keppendum þátttökuverðlaun. Þá afhenti hann einnig Sjómannabikarinn sem sjómaðurinn Sigmar Ólason frá Reyðafirði gaf til keppninnar árið 1984.

Rúmlega 40 börn kepptu á mótinu sem var nú haldið í þrítugasta og sjötta sinn. Á þessum tæpu fjóru áratugum eru aðeins fimm sundmenn sem hafa unnið mótið þrisvar eða oftar og þar af leiðandi unnið eignarbikar mótsins. Þau eru Birkir Rúnar Gunnarsson 1993, Gunnar Örn Ólafsson 2001, Guðrún Sigurðardóttir 2005, Kolbrún Alda Stefánsdóttir 2013 og Róbert Ísak Jónsson 2018.

Skólahljómsveit Kópavogs sá um tónlistarflutning við upphitun keppenda við mótið en hljómsveitin setur jafnan hátíðlegan og skemmtilegan blæ á mótahaldið.

Mynd/ Jón Björn - Tanya handhafi Sjómannabikarsins 2019.