Anna Karólína hlaut Kærleikskúlu SLF 2018


Anna Karólína Vilhjálmsdóttir hlaut í dag Kærleikskúlu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra við hátíðlega athöfn að Kjarvalsstöðum í Reykjavík. Anna Karólína er framkvæmdastjóri fræðslu- og útbreiðslusviðs Íþróttasambands fatlaðra og framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi.


Það var Eliza Reid forsetafrú Íslands sem afhenti Önnu Karólínu kúluna en þetta er í sextánda sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur frá sér Kærleikskúluna en allur ágóði af sölu hennar rennur til sumar- og helgarbúða fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjadal.


Í umsögn SLF kemur m.a. fram:


„Anna Karólína hefur í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Special Olympics og þróunarsviðs Íþróttasambands fatlaðra á Íslandi unnið ötult starf í þágu fatlaðra og stutt við og eflt íþróttaiðkun þeirra. Anna Karólína  hefur farið út fyrir venjubundnar starfslýsingar og verið leiðandi í því að lögð sé áhersla á það að hlustað sé á skoðanir íþróttafólks og iðkenda.“


Stjórn og annað starfsfólk Íþróttasambands fatlaðra óskar Önnu Karólínu innlega til hamingju með Kærleikskúluna 2018.


Nánar verður greint frá útnefningu Önnu Karólínu til Kærleikskúlunnar í næsta tímariti Hvata sem verður klárt úr prentvélunum laust fyrir jólahátíðina.


Mynd/ Jón Björn - Anna Karólína Vilhjálmsdóttir tekur við Kærleikskúlunni úr höndum forsetafrúarinnar Eliza Reid.