Stefanía í 9. sæti: Jón og Bergrún í úrslitum í kvöld


Stefanía Daney Guðmundsdóttir, Eik, hafnaði í 9. sæti í langstökki F20 (þroskahamlaðir) í morgun á EM fatlaðra sem nú stendur yfir í Berlín. Lengsta stökk Stefaníu í morgun var 4.62 metrar sem er rétt við Íslandsmet hennar í greininni en það er 4.85 m.


Stefanía var aðeins skráð í keppni í langstökki á EM svo hún hefur lokið keppni ytra. Stefanía í 9. sæti missti naumlega af því að komast inn í úrslitin en sigurvegari keppninnar var hin pólska Karolina Kucharczyk sem setti nýtt heimsmet þegar hún stökk 6.14 metra! Erica Gomes frá Portúgal hafnaði í öðru sæti með stökk upp í á 5.68 m. og í þriðja sæti varð Mikela Ristoski frá Króatíu með stökk upp á 5.52 m.


Núna seinni partinn verða þau Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir og Jón Margeir Sverrisson á ferðinni. Bergrún Ósk sem landaði bronsi í 100m hlaupi í gær keppir í kvöld í langstökki T37 og Jón Margeir keppir í úrslitum í 800m hlaupi karla T20. Keppnin hjá Bergrúnu hefst kl. 17:34 að staðartíma eða kl. 15:34 að íslenskum tíma en keppnin hjá Jóni kl. 18:15 að staðartíma eða 16:15 að íslenskum tíma.


Mynd/ Sverrir Gíslason - Stefanía Daney í langstökkskeppninni í Berlín í morgun.