Helgi tók við bronsinu: Patrekur og Andri luku ekki hlaupi


Það var viðburðarríkur morgun í Berlín á EM fatlaðra í frjálsum þegar Patrekur Andrés Axelsson tók þátt á sínu fyrsta stórmóti á ferlinum. Patrekur sem keppir í flokki T11 (blindir) náði ekki að ljúka hlaupi þar sem aðstoðarhlaupari hans, Andri Snær Ólafsson, meiddist á fæti í miðju hlaupi. Líkast til er um tognun að ræða hjá Andra en báðum var þeim skiljanlega mikið niðri fyrir.


Framan af hlaupi litu þeir félagar mjög vel út og allt útlit fyrir að nýtt Íslandsmet væri í uppsiglingu en það verður einhver bið á því úr þessu. Patrekur á að keppa í 200m hlaupi á föstudag og unnið er að því að leysa úr þeirri stöðu sem komin er upp með meiðsli Andra.


Fimm hlauparar voru skráðir til leiks í T11 en aðeins tveir verða í úrslitum þar sem Patrekur og Andri luku ekki hlaupi og tveir keppendur voru dæmdir úr leik! Frakkinn Timothee Adolphe átti besta tímann í undanrásum en hann hljóp á 11.16 sek. sem er nýtt Evrópumeistaramótsmet.


Þá tók Helgi Sveinsson við bronsverðlaunum sínum fyrir spjótkastkeppnina í gær en hann hefur lokið keppni og er nú á leið heim til Íslands. Í september fer Helgi í aðgerð á olnboga þar sem hann hefur glímt við meiðsli lungann af þessu keppnistímabili.


Myndir/ Andri og Patrekur í undanrásum 100m hlaupsins í morgun og Helgi Sveinsson á verðlaunapalli. Eins og sést á myndinni af Patreki og Andra leyndu vonbrigðin sér ekki en strákarnir báru sig þó engu að síður vel.