Bergrún og Jón við sitt besta í úrslitum


Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir tók í kvöld þátt í sinni fyrstu grein á sínu fyrsta stórmóti á ferlinum! Þessi unga og efnilega frjálsíþróttakona fann sig vel í nýju og mun stærra umhverfi en hún er vön og landaði fjórða sæti í úrslitum í 400m hlaupi T37 (hreyfihamlaðir) á EM fatlaðra í frjálsum í Berlín. Bergrún náði í hlaupinu sínum besta alþjóðlega tíma er hún kom í mark á 1:13.02 mín. en Íslandsmet hennar stendur óhaggað sem er undir 1.13.00 mín. en það met var sett á móti í sumar sem hafði ekki alþjóðlega vottun.


Hin úkraínska Nataliia Kobzar varð Evróumeistari í greininni á 1:05.24 mín. svo það er enn nokkuð í land hjá Bergrúnu til að velgja þeim bestu undir uggum en þessi frumraun var eins öflug og frekast gat orðið. Til hamingju Bergrún með lendinguna á stóra sviðinu og frammistöðuna í kvöld!


Þá keppti Jón Margeir Sverrisson í kvöld á sínu fyrsta stórmóti í frjálsum íþróttum en hann eins og flestir vita gerði garðinn áður frægan í sundi. Jón hafnaði í kvöld í 7. sæti í 400m hlaupi T20 (þroskahamlaðir) þegar hann kom í mark á tímanum 57.18 sek. sem var fín bæting úr undanrásum gærdagsins en hann á þó ögn betri tíma heima á Íslandi líkt og Bergrún en hans tími er einnig af móti sem var ekki inni á alþjóðlega mótalistanum svo tími kvöldsins er skráður sem besti alþjóðlegi tími Jón Margeirs. Í þessum karlaflokki T20 var það Portúgalinn Sandro Correia sem setti mótsmet þegar hann kom í mark á tímanum 49.60 sek.


Myndir/ Jón Björn - Bergrún og Jón Margeir í úrslitum kvöldsins.