Ísland hefur keppni á EM í dag!


Evrópumeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum var sett í gærkvöldi í Berlín í Þýskalandi. Íslenski keppnishópurinn hefur lokið undirbúningi sínum fyrir mótið og í dag er fyrsti keppnisdagurinn! Rétt eins og með Evrópumeistaramótið í sundi mun verða sýnt í beinni á netinu frá EM í frjálsum á Facebook-síðu ÍF.


Helgi Sveinsson var fánaberi Ísland við opnunarhátíð mótsins í gærkvöldi en hann er fyrstur á dagskrá í dag þegar hann freistar þess að vinna sinn þriðja Evrópumeistaratitil í röð! Keppni Helga í spjótkasti hefst kl. 17:30 að staðartíma eða kl. 15:30 að íslenskum tíma.


Nokkrum mínútum síðar keppir Hulda Sigurjónsdóttir í kúluvarpi og Jón Margeir Sverrisson í 400m hlaupi. Það er því þétt dagskráin hjá íslenska hópnum í dag og því ráð að stilla inn á útsendinguna á Facebook-síðu ÍF laust fyrir 15.30 í dag.


Mynd/ Íslenski hópurinn við setningu EM í Berlín í gærkvöldi.