Róbert stórbætti Íslandsmetið og varð fjórði!


Róbert Ísak Jónsson var rétt í þessu að hafna í fjórða sæti í 200m fjórsundi á opna breska meistaramótinu í Sheffield á Englandi. Róbert kom í bakkann á nýju og glæsilegu Íslandsmeti 2:15.07 mín. Í undanrásum setti hann nýtt met þegar hann synti á 2:17.01 mín. en gerði gott betur í úrslitum.


Japaninn Dai Tokairin landaði gullinu á 2:12.84 mín. svo það er morgunljóst að Róbert þarf að spýta enn frekar í lófana ef hann ætlar sér að skáka þeim hröðustu í greininni. Hollendingurinn Marc Evers hafnaði í 2. sæti á tímanum 2:13,22 mín. en hann hefur verið lengi að í sundi S14 (þroskahamlaðir) og borið hróður greinarinnar víða.

Mynd/ Róbert Ísak ásamt einni af bestu sundkonum okkar Íslendinga, Ragnheiði Runólfsdóttur, en Ragnheiður er yfirþjálfari Sundfélagsins Óðins á Akureyri og annar tveggja þjálfara í ferðinni ásamt Inga Þór Einarssyni öðrum af tveimur yfirmönnum afreksmála ÍF.