Þórður Georg: Fram úr björtustu vonum


Hilmar Snær Örvarsson hafnaði í dag í 20. sæti í stórsvigi á Vetrar-Paralympics í Suður-Kóreu. Hann var í 26. sæti eftir fyrri ferðina en klifraði upp í 20. sæti í seinni ferðinni. Þórður Georg Hjörleifsson yfirþjálfari hjá skíðadeild Víkings og þjálfari Hilmars var afar ánægður með árangurinn:


„Ég er mjög sáttur enda gerðum við ráð fyrir sætum 25-30 í þessari keppni þannig að þetta fór fram úr björtustu vonum,“ sagði Þórður um stórsvigsárangur Hilmars. Hilmar keppir aðeins í tveimur greinum á mótinu sem eru stórsvig og svig en svigið sem fram fer þann 17. mars næstkomandi er sterkari grein Hilmars af þessum tveimur.


Mynd/ Hilmar og Þórður að lokinni stórsvigskeppninni í dag.