Myndband: Vetrar-Paralympics settir með glæsibrag í Suður-Kóreu


Opnunarhátíð Vetrar-Paralympics er nú lokið og var hátíðin sett með pompi og prakt í PyeongChang í Suður-Kóreu. Eins og áður hefur komið fram var það skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson úr Víkingi sem var fánaberi Íslands við athöfnina en hann er jafnframt eini keppandi okkar við leikana.


Hilmar er fjórði Íslendingurinn sem keppir á Vetrar-Paralympics og líka sá yngsti eða sautján ára gamall. Það er gaman að greina frá því að Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) gerir ráð fyrir því að þessir Vetrar-Paralympics verði þeir stærstu og útbreiddustu í sögunni en metsala var á sýningarrétti mótsins og metskráning fjölmiðla við leikana og þá hefur miðasala á fjölda viðburða einnig gengið afar vel svo næstu rúma vikuna ætti að vera margt um manninn og mikið við að vera í PyeongChang.


Hilmar Snær keppir í svigi þann 14. mars næstkomandi og svo í stórsvigi þann 17. mars. Hilmar afgreiddi fánaburðinn að sjálfsögðu af stakri prýði við opnunarhátíðina og mun vafalítið láta vel fyrir sér finna í brekkunum á næstu dögum.


Hér að neðan er hægt að horfa á opnunarhátðina í heild sinni en innmarsering íslenska hópsins hefst á 41.11 mín. í myndbandinu.