Vetrar-Paralympics í PyeongChang 9.-18. mars


Nú standa Vetrarólympíuleikarnir sem hæst í Suður-Kóreu. Að þeim loknum hefjast Winter Paralympics þar sem Ísland teflir fram einum keppanda. Hér að neðan fer grein sem er áður birt í Hvata, tímariti ÍF, frá desember 2017:


Vetrar-Paralympics fara fram í PyeongChang í Suður-Kóreu dagana 9.–18. mars 2018. Ísland teflir fram einum keppanda á mótinu, Garðbæingnum unga og öfluga, Hilmari Snæ Örvarssyni. Hilmar verður fyrstur Íslendinga til að keppa á Vetrar-Paralympics í standandi flokki og sá fjórði í sögunni sem nær inn á vetrarleikana. 


Fyrstur á Vetrar-Paralympics var Svanur Ingvarsson sem keppti fyrir Íslands hönd í Lillehammer í Noregi árið 1994. Fyrsta konan steig svo á svið árið 2010 en það var Erna Friðriksdóttir sem þá keppti í alpagreinum í skíðastól. Á næstu leikum, í Sochi 2014, varð Jóhann Þór Hólmgrímsson fyrsti karlkyns keppandinn í skíðastól í alpagreinum. Að þessu sinni höldum við Íslendingar áfram að feta nýjar slóðir þar sem Hilmar mun keppa í alpagreinum í standandi flokki og er fyrstur okkar fólks til að ná þeim áfanga. 


Von er á um það bil 670 keppendum í PyeongChang sem staðsett er í norðausturhluta Suður-Kóreu. Þetta er umtalsverð fjölgun frá því í Sochi í Rússlandi árið 2014 þegar keppendur voru liðlega 530. 


Á Vetrar-Paralympics er keppt í alpagreinum, skíðaskotfimi, gönguskíðum, sleða-hokký, snjóbrettum og hjólastólakrullu. Hilmar keppir í alpagreinum og fer sú keppni fram í Jeongseon-alpasvæðinu. Sjálf opnunarhátíð leikanna fer fram þann 9. mars en keppnisdagar Hilmars eru 14. mars í risasvigi og 17. mars í svigi. 


„Við erum á réttri leið í sviginu og allt að koma þar. Hilmar átti níu góðar ferðir af tólf í síðustu mótum. Ég er því virkilega sáttur við frammistöðuna undanfarið og tel hana lofa góðu fyrir Paralympics í mars. Mitt mat er að Hilmar eigi möguleika á því að vera á meðal topp tíu keppenda í svigi,“ segir Þórður Georg Hjörleifsson, þjálfari Hilmars, og hann er ekki síður brattur hvað stórsvigið varðar.  


„Stórsvigið veltur dálítið á því hvað við náum að keppa mikið fram að Paralympics. Stefnan er að ná að minnsta kosti fjórum mótum fyrir Suður-Kóreu í stórsvigi og ég tel að með góðri baráttu geti hann komist í hóp 15 til 20 efstu keppenda í þeirri grein.“ 


Þórði og Hilmari til aðstoðar í ferðinni verður Einar Bjarnason sem m.a. þjálfaði Jóhann Þór Hólmgrímsson fyrir heimsmeistaramótið 2016. Hilmar verður því í þaulvönum og öruggum höndum í PyeongChang en þessi 17 ára gamli Garðbæingur er hvergi banginn á leið sinni í keppni við þá bestu. 


„Þetta verður töluvert stærra og meira en maður hefur átt að venjast til þessa en ég hef verið að undirbúa mig mjög vel og þá er engin ástæða til að óttast neitt. Ég er með fína tilfinningu fyrir því hvar ég stend andspænis þeim bestu en vonandi tekst mér að koma þeim á óvart og veita þeim almennilega samkeppni,“ sagði Hilmar sem hefur rúmlega tvo mánuði til stefnu til að meitla sig enn frekar fyrir Vetrar-Paralympics. 


Leikarnir í PyeongChang 2018 verða tólftu vertrarleikar Paralympics frá upphafi en Íslendingar taka nú þátt í fjórða sinn og í þriðja sinn í óslitinni röð. Árið 2022 fer mótið svo fram í Peking í Kína.