Íþróttamaður ársins 2017


Í sameiginlegu hófi sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Samtök íþróttafréttamanna stóðu fyrir 28. desember sl. var Ólafía Þórunn Kristinsdóttir kylfingur var útnefnd Íþróttamaður ársins 2017 af Samtökum íþróttafréttamanna. Aron Einar Gunnarsson knattspyrnumaður var í öðru sæti og Gylfi Sigurðsson knattspyrnumaður var í þriðja sæti.  Ólafía er glæsileg fyrirmynd fyrir íþróttafólk og óskar Íþróttasamband fatlaða Ólafíu til hamingju með viðurkenninguna og góðs gengis í framtíðinni. 


Meðal þeirra sem tilnefndir voru var spjótkastarinn Helgi Sveinsson sem hafnaði í 10. sæti í kjörinu en Helgi setti á árinu 2017 glæsilegt heimsmet í sínum fötlunarflokki F42 – 44 auk þess að hafna í öðru sæti á Heimsmeistaramóti fatlaðra. Nánari upplýsingar um kjör íþróttamanns ársins eru aðgengilegar á heimasíðu Samtaka íþróttafréttamanna.


Við sama tilefni voru íþróttamenn hinna ýmsu íþróttagreina heiðraðir af Íþrótta- og Ólympíusambandinu þar sem íþróttafólkið fékk afhenta veglega verðlaunagripi sem Ólympíufjölskylda ÍSÍ gefur við tilefnið.  Þannig fengu íþróttafólk ársins 2017 úr röðum fatlaðra, Thelma Björg Björnsdóttir og Helgi Sveinsson afhent sínar viðurkenningar. Allar upplýsingar um íþróttafólk sérsambanda eru aðgengilegar á heimasíðu ÍSÍ. Er öllum verðlaunahöfum færðar hamingjuóskir með viðurkenningar sínar.


Í tengslum við þessa glæsilegu hátíð var kraftlyftingamaðurinn Skúli Óskarsson frá Fá­skrúðsfirði og fyrr­ver­andi heims­met­hafi, útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ, en Skúli er sautjándi einstaklingurinn sem ÍSÍ útnefnir í höllina. Íþróttasamband fatlaðra harmar ummæli Skúla Óskarssonar sem hann viðhafði við þetta tækifæri um leið og Íþróttasamband fatlaðra óskar Skúla innilega til hamingju með innvígslu sína í heiðurshöll ÍSÍ.


Með það að markmiði að gera íþróttum fatlaðra jafn hátt undir höfði og íþróttamönnum annarra sérsambanda var Íþróttasamband fatlaðra stofnað árið 1979 að frumkvæði og tilstuðlan Íþróttasambands Íslands. Þannig er sambandið  æðsti aðili um íþróttir fatlaðra innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Íþróttasamband fatlaðra er stolt af því, líkt og önnur sérsambönd innan ÍSÍ, að vera aðili að því glæsilega hófi sem Íþrótta- og Ólympíusambandið stendur fyrir þar sem allt fremsta íþróttafólk á Íslandi er heiðrað.


Afreksíþróttafólk innan sérsambanda ÍSÍ, fatlað eða ófatlað er íþróttafólk fyrst og fremst. Flokkaskipting er í sumum íþróttagreinum svo sem í íþróttum fatlaðra, júdó, og lyftingum svo eitthvað sé nefnt. Það hlýtur að vera umhugsunarefni árið 2018, að ennþá þurfi skrifstofa ÍF að bregðast við og minna á að árangur fatlaðs íþróttafólks er metinn samkvæmt viðurkenndum heimslistum IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra) og ströngum forsendum, nákvæmlega eins og árangur annars íþróttafólks. Er ekki mál að linni og íþróttahreyfingin öll standi með ÍF og því íþróttafólki sem vegna fötlunar, getur ekki tekið þátt í hefðbundnu íþróttastarfi.